Gjaldþrotaskiptum í N4 ehf. lauk í síðustu viku, rúmu ári eftir að það var tekið til gjaldþrotaskipta.
Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu. Þar segir jafnframt að skiptakostnaður hafi greiðst að hluta og ellefu prósent veðkrafna. Ekkert hafi greiðst upp í aðrar kröfur.
Í tilkynningu sem birtist á vef N4 í febrúar í fyrra var greint frá því að sjónvarpsstöðin myndi kveðja.
„Fólkið í landinu hefur verið í brennidepli í allri framleiðslu efnis. N4 hefur varðveitt sögu þjóðarinnar. Þessum kafla í sögu fjölmiðla á Íslandi er lokið að sinni,“ sagði þar.
„Stjórn fyrirtækisins harmar þessa niðurstöðu, ekki síst í ljósi þess að N4 hefur verið eini fjölmiðillinn sem framleitt hefur íslenskt sjónvarpsefni utan höfuðborgarsvæðisins.“
María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4, hafði óskað eftir því að starfsemi RÚV utan höfuðborgarsvæðisins yrði lögð niður. Þá óskaði hún jafnframt eftir hundrað milljóna styrk, ef hann kæmi ekki myndi stöðin verða lögð niður.