Þetta kemur fram í nýrri færslu á vef Eldfjalla og náttúruváhóps Suðurlands. Þar segir að gosopum hafi ekkert fækkað frá því í byrjun vikunnar og framleiðnin sé því áfram merkilega stöðug.
Í hádegisfréttum Bylgunnar sagði Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni að nú gysi úr sjö gígum og hraun rynni í virkum taumi í suður. Mælingar sýndu að hraunið væri orðið allt að fjórtán metra hátt þar sem það væri þykkast.

Í færslu ENS segir að síðustu mánuði hafi sírennsli ekki verið til staðar, heldur hafi innstreymið safnast fyrir í grunnstæðu kvikuhólfi/laggangi undir Svartsengi, sem síðan hefur orsakað ítrekuð, skammlíf eldgos þegar þrýstingur í hólfinu var nægur til að brjóta leið upp á yfirborð.
„Þetta innstreymi hefur verið í gangi síðan síðla í október, eða tæpt hálft ár. Því má ætla að eldgosið gæti orðið nokkuð langdregið, þar sem engar vísbendingar hafa verið um það síðustu mánuði um að tekið sé að hægja á þessu innstreymi.“