Fótbolti

Samfélagsmiðlar yfir leiknum: Ís­land fer á EM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason fagnar marki sínu í kvöld.
Arnór Ingvi Traustason fagnar marki sínu í kvöld. David Balogh - UEFA/UEFA via Getty Images

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætti því ísraelska í undanúrslitum umspilsins um laust sæti á EM sem fram fer í Þýskalandi nú í sumar. Eins og svo oft áður voru Íslendingar virkir á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, á meðan leik stóð.

Íslenska liðið vann magnaðan 4-1 sigur gegn Ísrael og tryggði sér um leið hreinan úrslitaleik gegn Úkraínu um laust sæti á EM.

Áður en leikurinn hófst voru flestir að velta fyrir sér byrjunarliði íslenska liðsins, á meðan aðrir nýttu miðilinn einfaldlega til að spyrja hvenær leikurinn myndi hefjast.

Þá nýttu þeir Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handbolta, og Guðmudur Benediktsson, sem lýsti leiknum, tímann fyrir leik til að koma sér vel fyrir á vellinum. Bjarki Már hafði mestar áhyggjur af því hvar hann myndi finna meðlimi tólfunnar, stuðningssveitar Íslands.

Fyrri hálfleikur fór svo nokkuð rólega af stað, en það var íslenska liðið sem átti fyrsta alvöru færi leiksins. Boltinn barst þá út í teig á Orra Stein Óskarsson eftir að markvörður Ísraels hafði varið skot Arnórs Sigurðssonar. Á einhvern ótrúlegan hátt setti Orri þó boltann framhjá.

Stuttu síðar var íslenska liðinu svo refsað. Daníel Leó Grétarsson átti þá klaufalega sendingu og endaði svo sjálfur á því að brjóta af sér innan vítateigs. Eran Zahavi fór á punktinn og kom ísraelska liðinu yfir eftir tæplega hálftíma leik.

Íslensku strákarnir létu þó ekki slá sig út af laginu. Á 39. mínútu jafnaði Albert Guðmundsson metin fyrir Ísland með frábæru marki beint úr aukaspyrnu áður en Arnór Ingvi Traustason kom liðinu yfir þremur mínútum síðar og Ísland fór því með forystuna með sér inn í hálfleikshléi.

Íslenska liðinu gekk illa í upphafi síðari hálfleiks að finna þriðja markið til að gefa sér smá andrými frá ísraelska liðinu. Lukkan fór þó að snúast okkur í hag þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir og Roy Revivo fékk að líta beint rautt spjald fyrir brot á Arnóri Sigurðssyni.

Þrátt fyrir að vera manni færri fengu Ísraelar tækifæri til að jafna metin þegar Jón Dagur Þorsteinsson handlék knöttinn innan vítateigs. Sem betur fer skaut Eran Zahavi framhjá í þetta skiptið.

Íslenska liðið nýtti sér að lokum liðsmuninn og Albert Guðmundsson innsiglaði 4-1 sigur með mörkum á 83. og 87. mínútu. Þrennan var því komin í hús og sæti í hreinum úrslitaleik um sæti á EM tryggt.

Leikur Úkraínu og Íslands verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport þriðjudaginn 21. mars. Leikurinn hefst klukkan 19.45 en upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 19.10.


Tengdar fréttir

Einkunnir Íslands: Albert bar af í endurkomunni

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu vann magnaðan 4-1 sigur er liðið mætti Ísrael í undanúrslitum í umspili um laust sæti á EM sem fram fer í Þýskalandi í sumar.

Sverrir Ingi: Heppnin með okkur í dag en við ætlum á Evrópumótið

Ísland vann 4-1 í umspilsleik gegn Ísrael um sæti á Evrópumótinu í sumar. Sverrir Ingi, fyrirliði liðsins, sagði heppnina hafa verið með liðinu en var afar ánægður með karakterinn sem liðið sýndi og kvaðst fullur sjálfstrausts fyrir úrslitaleikinn gegn Úkraínu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×