Bein útsending frá leiknum, sem fer fram í Laugardalshöll, hefst klukkan fimm mínútur yfir sjö í kvöld. KR, sannkallað stórveldi í íslenskum körfubolta með átján Íslandsmeistaratitla á ferilskránni, féll niður úr efstu deild á síðasta tímabili.
Jakob Örn Sigurðarson, fyrrverandi leikmaður félagsins, sem á að baki feril sem atvinnu- og landsliðsmaður, tók við þjálfun þess fyrir yfirstandandi tímabil og KR-liðið er sem stendur á tólf leikja sigurgöngu, á toppi 1.deildar fyrir lokaumferðina í kvöld og hefur aðeins tapað tveimur leikjum á tímabilinu.
Skammt undan eru hins vegar ÍR-ingar með tveimur stigum minna. Fari svo að KR tapi í kvöld og ÍR vinni á sama tíma sinn leik í lokaumferðinni verður raunin sú að ÍR fer beint upp en KR færi þá í úrslitakeppni 1.deildar sem inniheldur liðin sem enda í öðru til fimmta sæti deildarinnar.
Ansi spennandi kvöld framundan í 1.deildinni. Ekki missa af leik Ármanns og KR í lokaumferð deildarinnar í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 5 í kvöld.