Danska liðið fékk á sig urmul marka í gær gegn Noregi, í 36-36 jafntefli, og var þjálfarinn Nikolaj Jacobsen stuttorður og hundfúll í sjónvarpsviðtali eftir þann leik, en sagði sitt lið þurfa að gera mun betur.
Það gerðu Danir í dag þegar þeir kjöldrógu króatíska liðið hans Dags sem skoraði aðeins sex mörk í fyrri hálfleiknum, en staðan að honum loknum var 16-6.
Þó að vissulega hafi aðeins um leik á æfingamóti verið að ræða þá virðist Dagur eiga stórt verkefni fyrir höndum, við að undirbúa Króata fyrir Ólympíuleikana í sumar, og eins og fyrr segir varð lokaniðurstaðan fimmtán marka tap.
Eitt af verstu töpunum
Samkvæmt króatíska miðlinum 24 Sata hefur Króatía ekki tapað með meiri mun í sögu landsliðsins. Þar er minnst á tvö önnur töp með fimmtán mörkum, og það fyrra svíður enn sárt en það var 29-14 tap gegn Rússum á EM 1998. Hitt tapið var í vináttulandsleik gegn Slóveníu árið 2016, 32-17.
Króatía var án hinna meiddu Dominik Kuzmanovic, Zvonimir Srna og Ivan Martinovic, og náði að halda í við Dani fyrstu tólf mínúturnar. Staðan eftir þær var 5-5 en svo skoruðu Danir tólf mörk gegn einu marki Króata og stungu gjörsamlega af.
Mario Sostaric var markahæstur Króata með sjö mörk en Emil Jacobsen skoraði ellefu fyrir Danmörku.
Króatar enduðu því mótið með tvö stig en þeir unnu Argentínu í gær, eftir tap gegn Noregi á fimmtudaginn.