Enski boltinn

Man Utd horfir enn á ný til fyrrum læri­sveins Ten Hag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
De Ligt á að baki 45 A-landsleiki og er hluti af hollenska hópnum á EM en hefur ekki komið við sögu.
De Ligt á að baki 45 A-landsleiki og er hluti af hollenska hópnum á EM en hefur ekki komið við sögu. Roy Lazet/Getty Images

Manchester United hefur hafið viðræður við Bayern München um möguleg kaup á miðverðinum Matthijs de Ligt. Sá spilaði undir stjórn Erik ten Hag hjá Ajax á sínum tíma.

Hinn 24 ára gamli De Ligt var ungur að árum orðinn lykilmaður í liði Ajax. Árið 2019 gekk hann í raðir ítalska stórliðsins Juventus og var síðan seldur til Bayern þremur árum síðar. Þar hefur hann ekki átt sjö dagana sæla og er nú orðaður frá félaginu þrátt fyrir að spila 30 leiki í þýsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

The Athletic greinir frá að Man United hafi þegar haft samband við Bayern um möguleg kaup en Ten Hag vill styrkja varnarlínu sína í sumar. Raphaël Varane hefur yfirgefið félagið og þá er talið að bæði Harry Maguire og Victor Lindelöf séu til sölu. Þá er óvíst hvort gamla brýnið Jonny Evans fái nýjan samning.

Man United hefur verið orðað við Jarrad Branthwaite, miðvörð Everton, en félögin eru engan veginn að ná saman hvað varðar kaupverð. Svo virðist sem Man Utd telji að De Ligt sé falur fyrir talsvert lægri upphæð en þá sem Everton vill fyrir sinn mann.

The Athletic segir ljóst að Ten Hag sé tilbúinn að festa kaup á báðum leikmönnum en það fari alfarið eftir því hvort félagið nái að selja leikmenn á móti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×