Fótbolti

Frakkar í undan­úr­slit án þess að skora mark í opnum leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Frakkland er komið í undanúrslit á enn einu stórmótinu.
Frakkland er komið í undanúrslit á enn einu stórmótinu. Emin Sansar/Getty Images

Frakkland mætir Spáni í undanúrslitum Evrópumóts karla í knattspyrnu. Frakkar hafa ekki enn skorað mark í opnum leik en þeir þurftu vítaspyrnukeppni til að slá Portúgal úr leik.

Það má segja margt um leik gærkvöldsins en skemmtanagildið var ekki hátt. Spennustigið var það hins vegar og því var við hæfi að leikurinn hafi endað í vítaspyrnukeppni.

Ousmane Dembélé kom Frakklandi yfir með fyrstu spyrnu Frakklands en Cristiano Ronaldo jafnaði metin um hæl.

Youssouf Fofana kom Frakklandi yfir á nýjan leik en Bernardo Silva jafnaði metin fyrir Portúgal áður en Jules Koundé kom Frakklandi yfir á ný. Þá var röðin komin að João Félix en hann hafði komið inn af varamannabekk Portúgal á 106. mínútu leiksins.

Spyrna Félix var ekki alslæm en hún endaði hins vegar í stönginni en ekki netinu og Frakkar sáu því undanúrslitin í hyllingum.

Bradley Barcola skoraði svo úr sinni spyrnu og setti því mikla pressu á Nuno Mendes sem þrumaði sinni spyrnu í netið og lagði allt traust á markvörð sinn Diogo Costa sem fór á kostum í vítaspyrnukeppni Portúgals og Slóvakíu fyrir aðeins örfáum dögum.

Costa átti hins vegar engin svör í gærkvöldi og það átti einnig við þegar Theo Hernandez steig upp. Hann negldi boltanum í netið og tryggði farseðilinn í undanúrslit. 

Frakkland er komið alla þessa leið án þess að skora mark í opnum leik. Kylian Mbappé skoraði úr vítaspyrnu í riðlakeppninni, þá hafa mótherjar Frakklands skorað tvö sjálfsmörk og svo þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni gegn Portúgal.

Það sem er álíka skrítið er að Frakkland á enn eftir að fá á sig mark úr opnum leik en eina markið sem Frakkar hafa fengið á sig á mótinu til þessa skoraði Robert Lewandowski úr vítaspyrnu í 1-1 jafntefli Frakklands og Póllands. 

Nú er að bíða og sjá hvort Spánn, eitt heitasta liðið til þessa á mótinu, takist að hrista upp í leikstíl Frakka eða hvort undanúrslitaleikurinn verði enn ein skákin sem Didier Deschamps, þjálfari Frakklands, vinni.


Tengdar fréttir

Frakkar sluppu inn í undanúrslit

Cristiano Ronaldo og félagar í portúgalska landsliðinu eru úr leik á EM eftir tap í vítaspyrnukeppni gegn Frökkum, í 8-liða úrslitum í Þýskalandi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×