Enski boltinn

Vista­skipti Kilman gætu breytt fram­tíð E-deildarliðs Maidenhead

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nýjasti leikmaður West Ham í baráttunni við Erling Braut Haaland.
Nýjasti leikmaður West Ham í baráttunni við Erling Braut Haaland. Richard Sellers/Getty Images

Max Kilman hefur skrifað undir sjö ára samning við West Ham United eftir að félagið festi kaup á honum fyrir allt að 40 milljónir punda, rúma sjö milljarða íslenskra króna. E-deildarlið Maidenhead United fær hluta af kaupverðinu og gæti það breytt framtíð félagsins.

Kilman hefur undanfarin ár leikið með Úlfunum en Wolves keypti hann frá Maidenhead árið 2018 á 40 þúsund pund. Segja má að um ágætis ávöxtun sé að ræða en varnarmaðurinn var einnig eftirsóttur síðasta sumar.

Nú stóðust Úlfarnir ekki mátið en Julen Lopetegui þjálfaði Kilman hjá Úlfunum en er nú þjálfari Hamranna. Kilman, sem var fyrirliði Úlfanna á síðustu leiktíð, er þriðji leikmaðurinn sem West Ham kaupir í sumar en fyrir höfði markvörðurinn Wes Foderingham og táningurinn Luis Guilherme gengið í raðir félagsins.

Hinn 27 ára gamli Kilman er spenntur fyrir því að vinna með Lopetegui á nýjan leik: „Ég naut þess að vinna með Julen hjá Wolves. Hann er hágæða þjálfari og einhver sem hefur kennt mér mikið. Ég er viss um að ég mundi halda áfram að bæta mig sem leikmaður undir hans stjórn.“

Peter Griffin, formaður Maidenhead, sagði í viðtali við Sky Sports að fjármunirnir sem félagið fær vegna kaupa West Ham á Kilman gættu „breytt framgangi félagsins.“

„Þegar Max var hjá okkur vissum við að hann væri hæfileikaríkur en ég væri að ljúga ef ég segðist vita hversu langt hann myndi ná. Ég er gríðarlega stoltur. Hugarfar hans hefur hjálpað honum að ná svona langt og við erum mjög ánægð fyrir hans hönd,“ sagði Griffin jafnframt.

Maidenhead spilar í E-deildinni og er ekki atvinnumannalið. Félagið fær prósentu af kaupverði Kilman þar sem sú klásúla var gerð þegar West Ham keypti leikmanninn á sínum tíma.

Griffin segir að fjármagnið sem mun renna til félagsins muni ekki aðeins fara í karlalið félagsins heldur félagið í heild.

„Það mun einnig renna til kvennaliðsins, hvernig við vinnum með nærumhverfi okkar og innviði félagsins,“ sagði Griffin að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×