Fótbolti

Eyja á skotskónum með Kanada

Siggeir Ævarsson skrifar
Cloe Eyja Lacasse í baráttunni í dag
Cloe Eyja Lacasse í baráttunni í dag vísir/Getty

Keppni í knattspyrnu kvenna á Ólympíuleikunum rúllaði af stað í dag og er tveimur leikjum lokið. Kanada lagði Nýja-Sjáland 2-1 og þá lagði Spánn Japan 2-1.

Það var hin íslenska Cloé Eyja Lacasse sem skoraði jöfnunarmark Kanada í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir heilan sirkus af sendingum sem endaði með fyrsta marki Eyju á Ólympíuleikunum í jafnframt hennar fyrsta Ólympíuleik.

Cloé Eyja lék um árabil með ÍBV og fékk íslenskan ríkisborgararétt 2019. Margir reiknuðu með að hún yrði valin í íslenska landsliðið í kjölfarið en hún fékk aldrei kallið og hefur leikið 36 landsleiki með Kanada síðan 2021.

Í fyrsta leik dagsins lögðu ríkjandi heims- og Evrópumeistarar Spánar Japan 2-1 en lið Spánar er vel mannað á leikunum í ár og talið ansi sigurstranglegt.

Alls eru sex leikir á dagskrá í dag og leikið í öllum riðlum. Leikir Nígeríu og Brasilíu sem og Þýskalands og Austurríkis hófust núna klukkan 17:00 og klukkan 19:00 mætast annars vegar Bandaríkin og Sambía og hins vegar Frakkland og Kólumbía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×