Fótbolti

Dísætur sigur í Íslendingaslag

Sindri Sverrisson skrifar
Júlíus Magnússon og félagar í Fredrikstad hafa átt afar góða leiktíð.
Júlíus Magnússon og félagar í Fredrikstad hafa átt afar góða leiktíð. fredrikstadfk.no

Eina mark leiksins kom seint í uppbótartíma þegar Júlíus Magússon fagnaði dísætum sigri með Fredrikstad gegn Haugesund í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Júlíus er fyrirliði Fredrikstad sem hefur átt afar góðu gengi að fagna sem nýliði í norsku úrvalsdeildinni, en þó átt erfitt uppdráttar í allra síðustu leikjum.

Sigurinn í kvöld var því enn sætari og mikilvægari, en hann skilar Fredrikstad upp að hlið Molde í 4.-5. sæti með 31 stig eftir 18 leiki, og eru liðin tveimur stigum á eftir Brann. Þrjú efstu lið deildarinnar eru örugg um að fá Evrópusæti og 4. sætið gæti einnig dugað til þess.

Júlíus lék allan leikinn í kvöld en Anton Logi Lúðvíksson kom inn á sem varamaður hjá Haugesund, á 63. mínútu. Haugesund mistókst þar með að komast af botni deildarinnar en liðið er með 17 stig líkt og Sandefjord, stigi á eftir Odd og Tromsö.

Í næstefstu deild Noregs lék Keflvíkingurinn Davíð Snær Jóhannsson allan leikinn fyrir Aalesund í 2-0 útisigri á Sandnes Ulf. Sigurinn var mikilvægur fyrir Aalesund sem komst þar með upp í 12. sæti og er með 18 stig, fimm stigum fyrir ofan Sandnes Ulf sem er í 16. og neðsta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×