Shaw missir af byrjun tímabilsins vegna kálfameiðsla. Hann missti einnig af stórum hluta síðasta tímabils en fór þrátt fyrir það á EM þar sem hann byrjaði einungis einn leik.
Schmeichel var ekki skemmt þegar hann heyrði af nýjustu meiðslum Shaws og skammaði hann fyrir að taka sér ekki frí í sumar.
„Hann spilaði síðast fyrir United í febrúar en fór samt á EM. Ég held að hann hafi spilað smá í átta liða úrslitunum, undanúrslitunum og svo úrslitaleikinn. Nú er hann meiddur aftur. Hann er svo mikilvægur. Hann er reyndur og topp klassa vinstri bakvörður,“ sagði Schmeichel á BBC.
„Hann er leikmaður Manchester United. Við borgum honum laun. Hann ætti að einbeita sér að United og hafa það í forgangi, ekki landsliðið.“
Frá því Shaw kom til United frá Southampton fyrir áratug hefur hann misst af samtals 264 leikjum fyrir liðið og enska landsliðið.
Til að bæta gráu ofan á svart fyrir United er hinn vinstri bakvörðurinn í hópnum, Tyrrell Malacia, einnig meiddur og óvíst er hvenær hann snýr aftur á völlinn.
United tekur á móti Fulham í upphafsleik ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. United endaði í 8. sæti á síðasta tímabili.