Enski boltinn

Brady á­nægður með ráð­herra­soninn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Willum Þór fagnar sínu fyrstu deildarmarki fyrir Birmingham City.
Willum Þór fagnar sínu fyrstu deildarmarki fyrir Birmingham City. Birmingham City

Leikstjórnandinn fyrrverandi Tom Brady, einn af eigendum Íslendingaliðsins Birmingham City, deildi færslu félagsins eftir sigurleik gegn Wycome Wanderers og taggaði Willum Þór Willumsson, hetju liðsins í leiknum, á Instagram.

Mikið var rætt og ritað um kaup Brady og félaga á Birmingham á síðustu leiktíð. Þeir vona eflaust að fall sé fararheill en liðið féll úr ensku B-deildinni og leikur því í C-deildinni í ár. 

Það virðist hafa verið lán í óláni fyrir íslenska knattspyrnumenn því Willum Þór Willumsson var keyptur til félagsins á metfé fyrr í sumar og Alfons Sampsted, fyrrverandi liðsfélagi hans hjá Breiðabliki, gekk til liðs við félagið á dögunum.

Hvað hinn 47 ára gamla Brady varðar þá er hann einn sigursælasti leikmaður í sögu NFL-deildarinnar. Hann á sjö meistaratitla að baki og þá var hann fimm sinnum valinn verðmætasti leikmaðurinn í Ofurskálinni en það er úrslitaleikur deildarinnar.

Í gær, laugardag, vann Birmingham torsóttan 3-2 útisigur á Wycombe þökk sé marki varamannsins Willums Þórs. Því miður þurfti þessi 25 ára gamli landsliðsmaður að yfirgefa völlinn í uppbótartíma vegna meiðsla.

Það breytir því ekki að Brady var sáttur með sigurinn og deildi færslu félagsins þar sem sigrinum var fagnað, með mynd af Willum Þór að fagna á Instagram-síðu sinni þar sem hann er með 15 milljónir fylgjenda.

Færslan sem Tom Brady deildi.@tombrady

Willum Þór Þórsson, faðir leikmannsins, er heilbrigðisráðherra Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×