Enski boltinn

Félix á leið til Chelsea á meðan Gallag­her fer í hina áttina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Er á leið til Chelsea á nýjan leik.
Er á leið til Chelsea á nýjan leik. Simon Stacpoole/Getty Images

Portúgalinn João Félix er á leið til Chelsea á nýjan leik en enska knattspyrnufélagið kaupir hann nú eftir að hafa fengið hann á láni á síðasta ári. Enski miðjumaðurinn fer í hina áttina en ekki er þó um hreinan skiptidíl að ræða milli Atlético Madríd og Chelsea.

Hinn áreiðanlegi David Ornstein, blaðamaður The Athletic, segir Félix þegar hafa náð samkomulagi við Chelsea. Mun hann skrifa undir sex ára samning við enska félagið með möguleika á árs framlengingu.

Hinn 24 ára gamli Félix gekk í raðir Atl. Madríd árið 2019 á fúlgur fjár en fann sig aldrei í höfuðborg Spánar. Hann gekk til liðs við Chelsea á láni á síðasta ári og svo spilaði hann með Barcelona, einnig á láni, á síðustu leiktíð.

Nú er Chelsea hins vegar að kaupa kappann en kaupverðið hefur ekki verið staðfest. Félix á að baki 41 A-landsleik fyrir Portúgal og hefur skorað í þeim 8 mörk.

Eftir langar viðræður virðist Englendingurinn Gallagher loks á leið til Atl. Madríd. Fabrizio Romano segir kaupverðið nema 42 milljónum evra eða tæplega sex og hálfum milljarði íslenskra króna.

Ekki er vitað hversu langan samning hinn 24 ára gamli Gallagher skrifar undir í Madríd. Hann hefur verið samningsbundinn Chelsea allan sinn feril en þó leikið með Charlton Athletic, Swansea City, West Bromwich Albion og Crystal Palace á láni.

Gallagher á að baki 18 A-landsleiki fyrir England.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×