Fótbolti

Albert segir um­mæli gamla yfir­mannsins á­fall

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi í gær. Hann gæti orðið dýrasti leikmaður í sögu Fiorentina.
Albert Guðmundsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi í gær. Hann gæti orðið dýrasti leikmaður í sögu Fiorentina. @acffiorentina

Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson var kynntur til leiks sem leikmaður Fiorentina á blaðamannafundi í gær. Þar var hann meðal annars spurður út í nauðgunarmálið sem vofir yfir honum, og orð framkvæmdastjóra Genoa sem sagði Albert hafa suðað um að losna frá félaginu.

Albert kemur til Fiorentina að láni frá Genoa, þar sem hann raðaði inn mörkum á síðustu leiktíð, en með kaupum næsta sumar og bónusgreiðslum mun Fiorentina á endanum greiða 28 milljónir evra fyrir hann, samkvæmt Fabrizio Romano og fleiri blaðamönnum.

Andres Blazquez, framkvæmdastjóri Genoa, sagði félagið hafa reynt að halda Alberti og kenndi honum alfarið um hvernig fór:

„Við reyndum að halda honum og buðum honum launahækkun upp á eina milljón (evra) en hann kom á skrifstofuna á hverjum degi til að mótmæla. Á endanum vildi stjórinn ekki leikmann sem ekki vildi vera hérna,“ var haft eftir Blazquez í ítölskum miðlum.

Albert var spurður út í þessi ummæli og svaraði: „Þessi orð hans voru svolítið áfall fyrir mig. Ég átti í góðu sambandi við hann, þekkti hann og hans fallegu fjölskyldu. Svo ég vil ekki tala illa um hann, því hann hefur hjálpað mér mikið síðustu tvö og hálft ár, en auðvitað má fólk ekki trúa öllu sem er skrifað í fjölmiðlum. Hann segist hafa boðið mér eina milljón evra í kauphækkun á ári en það er fjarri sannleikanum.“

Sannfærður um sakleysi sitt

Albert var einnig spurður út í þá staðreynd að nú styttist í dómsúrskurð í máli hans vegna ákæru um nauðgun á Íslandi á síðasta ári. Hann hefur ætíð haldið fram sakleysi sínu og gerði það einnig í gær.

„Málið verður tekið fyrir í september en það hefur engin áhrif á mig. Þetta hefur verið í gangi síðasta árið en ég einbeiti mér að fjölskyldu minni og fótboltanum. Ég er sannfærður um sakleysi mitt og ég get ekki beðið eftir að sannleikurinn komi í ljós.“

Getur ekki spilað strax

Óvíst er hvenær Albert spilar sinn fyrsta leik fyrir Fiorentina en hann staðfesti á fundinum í gær að hann væri að glíma við smávægileg meiðsli í kálfa.

Hann var einnig spurður hvernig það væri að verða mögulega dýrasti leikmaður í sögu Fiorentina: „Það er mikill heiður fyrir mig að vera keyptur fyrir svona mikinn pening. En ég mun hvort sem er alltaf leggja mig 100% fram og læt svona lagað ekki vera neina aukabyrði á mér.“

Albert, sem er 27 ára gamall, skoraði 14 mörk í ítölsku A-deildinni á síðustu leiktíð og varð fimmti markahæstur allra í deildinni.

Í samræmi við reglur KSÍ spilaði hann ekki fyrir íslenska landsliðið eftir að hann var kærður fyrir nauðgun á síðasta ári, en hann var svo valinn í landsliðshópinn fyrir EM-umspilið í mars síðastliðnum eftir að héraðssaksóknari ákvað að láta málið niður falla. Þó að sú ákvörðun væri kærð rétt fyrir landsleikina gaf stjórn KSÍ leyfi fyrir því að Albert spilaði, í því ljósi að landsliðsverkefni væri hafið, og skoraði hann þrennu í 4-1 sigri gegn Ísrael, og mark Íslands í 2-1 tapi gegn Úkraínu í úrslitaleik umspilsins.


Tengdar fréttir

Albert kynntur til leiks í Flórens

Albert Guðmundsson er formlega orðinn leikmaður Fiorentina en ítalska félagið kynnti hann til leiks á samfélagsmiðlum nú rétt í þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×