Ásgeir greinir frá þessu í færslu á Facebook-síðu sinni en fjallað hefur verið um leitina að syni hans í fjölmiðlum í dag.
„Við – fjölskylda Þóris Kolka - leituðum til lögreglu vegna þess að við höfðum ekki haft spurnir af honum um nokkurn tíma. Var í kjölfarið lýst eftir honum af Interpol, að okkar ósk. Nú, fyrir örfáum dögum fengum við fregnir af honum sem hafa gert okkur rólegri, um sinn.“
Þórir er 24 ára gamall en að sögn lögreglu hefur ekki spurst til hans frá 27. júlí síðastliðnum. Á vef Interpol kemur fram að Þórir hafi sennilega heimsótt lönd á borð við Ítalíu, Sviss og Egyptaland síðustu misseri.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn og tengiliður við Interpol sagði í samtali við fréttastofu í morgun að lögregla hafi komið að málinu 30. júlí og haft samband við Interpol í upphafi ágústmánaðar.