Olmo tryggði Börsungum sigurinn í sínum fyrsta leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Olmo er mættur til leiks.
Olmo er mættur til leiks. Irina R. Hipolito/Getty Images

Barcelona þurfti að koma til baka gegn Rayo Vallecano þegar liðin mættust í La Liga, spænsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld. Nýi maðurinn Dani Olmo reyndist hetja gestanna.

Heimamenn í Vallecano slógu gestina með blautri tusku strax á 9. mínútu þegar Unai Lopez kom heimaliðinu yfir. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks og gestirnir óvænt undir þegar gengið var til búningsherbergja.

Hansi Flick, þjálfari Börsunga, brást við með að setja Olmo inn fyrir Ferran Torres strax í hálfleik. Það átti eftir að skila sér en fyrst jafnaði Pedri metin eftir undirbúning Raphinha.

Robert Lewandowski hélt hann hefði komið Barcelona yfir á 71. mínútu en markið var dæmt af vegna brots í aðdraganda þess. Það kom ekki að sök þar sem rúmlega tíu mínútum síðar gaf undrabarnið Lamine Yamal á Olmo sem skoraði og tryggði Barcelona sigurinn í sínum fyrsta leik.

Lokatölur 1-2 og Börsungar með fullt hús stiga að loknum þremur umferðum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira