Fótbolti

Nýju framherjarnir náðu ekki að skora

Sindri Sverrisson skrifar
Julian Alvarez náði ekki frekar en aðrir að skora á Metropolitano vellinum í Madrid í kvöld.
Julian Alvarez náði ekki frekar en aðrir að skora á Metropolitano vellinum í Madrid í kvöld. Getty/Rico Brouwer

Atlético Madrid varð að sætta sig við markalaust jafntefli á heimavelli gegn Espanyol sem þar með náði í sitt fyrsta stig í spænsku 1. deildinni í fótbolta á þessari leiktíð.

Normaðurinn Alexander Sörloth og Argentínumaðurinn Julian Álvarez, sem báðir komu til Atlético í sumar, voru í fremstu víglínu liðsins í kvöld. Hvorugum tókst að skora og kom Antoine Griezmann inn á fyrir Álvarez í hálfleik, en Reinildo fyrir Sörloth á 73. mínútu.

Atlético er nú með fimm stig eftir fyrstu þrjá leiki sína í deildinni.

Real Sociedad, liðið sem sækir svo fast að fá Orra Stein Óskarsson til sín, tapaði á heimavelli gegn Alaves, 2-1.

Róðurinn var þungur fyrir heimamenn eftir að Mikel Oyarzabal fékk rauða spjaldið á 29. mínútu, en þeir komust samt yfir í kjölfarið með marki frá Brais Méndez.

Asier Villalibre jafnaði metin fyrir Alaves úr vítaspyrnu rétt fyrir hálfleik og Toni Martínez skoraði sigurmarkið á 70. mínútu.

Real Sociedad er því með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leiki sína en Alaves með fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×