Erlent

Útgáfufyrirtækin höfða mál gegn Flórída vegna bókalaga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Útgáfufyrirtækin segja lögin hafa orðið til þess að fjöldi verka, sem hafa ekkert með klám að gera, hafi verið fjarlægð af bókasöfnum.
Útgáfufyrirtækin segja lögin hafa orðið til þess að fjöldi verka, sem hafa ekkert með klám að gera, hafi verið fjarlægð af bókasöfnum. Getty

Penguin Random House, stærsta útgáfufyrirtæki Bandaríkjanna, og fleiri útgefendur hafa höfðað mál á hendur menntamálayfirvöldum í Flórída vegna laga sem banna kynferðislegt efni á skólabókasöfnum.

Samkvæmt lögunum nægir að eitt foreldri eða einn íbúi á tilteknu skólasvæði kvarti vegna klámfenginna efnistaka til að umrædd bók sé fjarlægð af bóksafninu.

Útgáfufyrirtækin segja lögin hins vegar hafa leitt til strangrar ritskoðunnar í fjölda skóla og að fjöldi bóka hafi verið fjarlægður, án þess að forsendur væru til þess.

Að sögn forsvarsmanna útgáfufyrirtækjanna hafa bæði klassískar bókmenntir og metsölubækur verið teknar úr umferð, jafnvel þótt þær innihéldu ekkert sem gæti talist klámfengið. Þar mætti meðal annars nefna Ég veit af hverju fuglinn í búrinu syngur eftir Mayu Angelou, Augu þeirra horfðu til Guðs eftir Zora Neale Hurston og Sláturhús 5 eftir Kurt Vonnegut.

Sydney Booker, talsmaður menntamálayfirvalda ríkisins, sagði í yfirlýsingu á fimmtudag að um væri að ræða almannatengslabrellu af hálfu fyrirtækjanna. Engar bækur væru bannaðar í Flórída en klámefni ætti ekki heima í skólum.

Samkvæmt tjáningarfrelsissamtökunum PEN America voru 4.300 bækur fjarlægðar úr hillum skólabókasafna í 23 ríkjum á sex mánaða tímabili í fyrra.

Umfjöllun New York Times. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×