Erlent

Fjöru­tíu og sjö fallnir og rúm­lega tvö hundruð særðir í skotflaugaárás

Samúel Karl Ólason skrifar
Ekki var mikill fyrirvari að árásinni og voru margir enn á leið í neðanjarðarbyrgi þegar skotflaugarnar lentu.
Ekki var mikill fyrirvari að árásinni og voru margir enn á leið í neðanjarðarbyrgi þegar skotflaugarnar lentu.

Að minnsta kosti 47 féllu og 206 eru særðir eftir að tvær skotflaugar hæfðu skóla, þar sem nýir hermenn fá þjálfun, og sjúkrahús í Poltava í Úkraínu. Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir marga hafa lent undir braki húsa sem skemmdust í árásinni.

Svo virðist sem stofnun þar sem hermenn fá þjálfun í fjarskiptum hafi verið eitt skotmarka Rússa í borginni og sjúkrahús þar nærri hafi orðið fyrir hinni skotfloginni. Ekki hefur verið gefið út hve stór hluti hinna látnu og særðu eru hermenn. Myndefni sem birt hefur verið á samfélagsmiðlum sýnir nokkur lík klædd í herbúninga.

Í yfirlýsingu sem Selenskí birti í dag sagðist hann hafa gefið þá skipun að tildrög árásarinnar yrðu rannsökuð í þaula og að Rússar myndu gjalda fyrir þessa árás.

Þá kallaði Selenskí eftir því að Úkraínumenn fengu fleiri loftvarnarkerfi og önnur vopn sem þeir gætu notað til að stöðva þessar árásir Rússa.

Ráðamenn í Poltava hafa kallað eftir því að íbúar gefi blóð.

Erfitt er að skjóta niður skotflaugar, sem á ensku kallast „ballistic missile“ en varnarmálaráðuneyti Úkraínu segir að lítill fyrirvari hafi verið að árásinni og margir hafi enn verið á leið í sprengjubyrgi. Enn er unnið að því að bjarga fólki úr rústunum.

Uppfært: Fjöldi fallinna og særðra hefur verið hækkaður úr 41 og 180.


Tengdar fréttir

Eldflaugum frá Norður-Kóreu skotið að Úkraínu

Rússar sendu í nótt fjölda dróna og eldflauga að skotmörkum í Úkraínu. Notast var við 35 stýri- og skotflaugar auk 26 Shahed-dróna, samkvæmt Úkraínumönnum, og segjast þeir hafa skotið niður níu skotflaugar, þrettán stýriflaugar og tuttugu dróna.

Slysið hörmulega muni ekki hafa áhrif á vopnasendingar

Flugsérfræðingur segist fullviss um að harmræn örlög flugmanns F-16 herþotu, sem Úkraínumenn fengu nýverið afhenta, muni ekki hafa áhrif á frekari vopnasendingar vesturvelda til Úkraínu. Enn er á huldu hvað nákvæmlega olli slysinu, sem fengið hefur mjög á úkraínsku þjóðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×