Enski boltinn

Metin kol­féllu í kaupum á fótboltakonum

Sindri Sverrisson skrifar
Olivia Smith varð dýrasti leikmaður í sögu kvennaliðs Liverpool í sumar.
Olivia Smith varð dýrasti leikmaður í sögu kvennaliðs Liverpool í sumar. Getty/John Powell

Aldrei hefur meira fé verið varið í kaup á leikmönnum í knattspyrnu kvenna en nú í sumar, og eyðslan í sumarglugganum er meira en tvöfalt meiri en í fyrra.

Þetta kemur fram í tölum frá FIFA sem BBC fjallar um í dag.

Þar segir að 5,18 milljónum punda hafi verið eytt í leikmenn á sumar, en það jafngildir um 940 milljónum króna. Það er 125% meira en í sumarglugganum í fyrra.

Yfir 1.100 félagaskipti urðu hjá leikmönnum í atvinnumannadeildum og er það 30% aukning miðað við síðustu tólf mánuði þar á undan.

Mestum fjárhæðum hefur verið eytt í ensku úrvalsdeildinni en glugginn þar lokast 11. september. Alls hafa leikmenn verið keyptir fyrir 1,78 milljón punda og seldir úr deildinni fyrir 760.000 pund.

Til að mynda sló Liverpool félagsmet sitt þegar félagið keypti kanadískan táninginn Oliviu Smith frá Sporting Lissabon fyrir 210.000 pund, eða jafnvirði rúmlega 38 milljóna króna.

Alvarez dýrastur en ensku félögin eyddu mest

Í fótbolta karla hefur aðeins einu sinni hærri upphæð verið eytt á einu sumri, en það var í fyrra. Núna var 4,92 milljörðum punda, eða um 894 milljörðum króna, varið í leikmenn en það er samt 13% minna en í fyrra.

Yfir 11.000 félagaskipti hafa verið gerð hjá körlunum, sem er nýtt met.

Ensku félögin eyddu meira í leikmenn en nokkur önnur deild, eða 1,29 milljarði punda.

Dýrasti leikmaður gluggans er Julian Alvarez sem fór frá Manchester City til Atlético Madrid fyrir 81,5 milljónir punda en dýrasti leikmaður sem enskt félag keypti var Dominic Solanke, sem Tottenham fékk frá Bournemouth fyrir 55 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×