Skoðun

Af hverju fór VG ekki í ríkis­stjórn með Ingu Sæ­land?

Kristinn Sigurður Sigurðsson skrifar

Árið er 2017. Það er nýbúið að halda kosningar. Og það er möguleiki á nýrri ríkisstjórn. Stjórnmálaflokkarnir sem hafa verið kosnir á Alþingi spanna litrófið með breiðari hætti en áður hefur þekkst í íslenskum stjórnmálum. Nýjir flokkar eins og Píratar og Flokkur Fólksins hafa náð mönnum inn á þing. Inn á þing er komið vinsælt stjórnmálafólk eins og Helgi Hrafn Pírati og Inga Sæland - fólk sem er einhvernveginn ekki jafn úrkynjað og skrýtið og þetta hefðbundna stjórnmálafólk.

Það er möguleiki á sögulegri ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem spannar litrófið frá vinstri og yfir miðjuna. Ríkisstjórn sem getur breytt því sem þarf að breyta í íslensku samfélagi.

Sögulegi valdaflokkurinn hefur aldrei verið veikari. Flokkurinn hefur tapað öllum tengslum við uppruna sinn - frelsi einstaklingsins og stétt með stétt. Flokkurinn er orðinn geislavirkur. Það hefur meira að segja komið í ljós að valdakjarni flokksins er nátengdur barnaníðingum - tengsl sem flokkurinn reyndi eins og hann gat að leyna fyrir þjóðinni en tókst þó ekki. Formaður flokksins er óvinsælasti stjórnmálamaður landsins. Skandalarnir í kringum hann eru endalausir. Peningasukk, skattaundanskot, yfirhylming á fjölskyldutengslum við barnaníðinga.

En samt fór að spyrjast út að VG ætlaði sér ekki að mynda ríkissstjórn sem myndi breyta samfélaginu. VG ætlaði að fara í ríkisstjórn með Bjarna Ben. Ég man ég var eitthvað að rífast um þetta á internetinu við eitthvað fólk í innsta hring VG. Hvað eruði að spá? Hvernig getur femínískur flokkur farið í samstarf með stjórnmálahreyfingu sem finnst kúl og sexý að hylma yfir með mönnum sem nauðga stúlkubörnum? Hvað er að því að fara bara í ríkisstjórn með Flokki Fólksins? Svarið var að það væri ekki hægt að fara í ríkisstjórn með Ingu Sæland. Hún væri nefnilega rasisti.

Nú sjö árum síðar, þegar VG er í þann mund að brottvísa fötluðu barni í hjólastól í opinn dauðann af því það er brúnt á litinn - þá vitum við að ástæðan fyrir því að VG fór ekki í ríkisstjórn með Flokki Fólksins hafði ekkert með meintan rasisma að gera. Inga Sæland er vissulega ófullkomin og breysk eins og við öll hin - en ég held að engin trúi því að hún hefði í sér þá illsku og grimmd að koma fötluðum börn í lífshættu sér til skemmtunar.

Leiðtogar VG á þessum árum voru Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavardóttir. Þær höfðu alltaf tilheyrt valdastéttinni. Katrín var dóttir bankastjóra og Svandís var dóttir ráðherra. Nú voru þær sjálfar komnar til valda og áhrifa og þær vildu vinna með fólki sem þær treystu. Fólki sem var eins og þau. Tilheyrði valdastéttinni. Inga Sæland var hinsvegar öryrki. Hún var blind. Fátæk. Bjó í Breiðholtinu og fannst gaman að syngja í karókí.

Bjarni Ben var hinsvegar töff. Hann átti valdamikinn pabba eins og þær. Hann var myndarlegur, góður í fótbolta og átti flottan baseball-jakka. Honum fannst líka að ókúltíverað pakk úr Breiðholtinu ætti ekkert með að vilja upp á dekk. Þær tengdu við hann.

Eftir næstu kosningar verður það Kristrún Frostadóttir sem fær að bjóða fólki í partýið. Foreldrar hennar voru læknar. Hún fór í MR. Hún vann í fjármálageiranum. Er hún líkleg til þess að fara í ríkisstjórn með brúnum konum sem ólust upp í fátækt eða öryrkjum sem finnst gaman að syngja Tinu Turner í karókí?

Íslensk stjórnmál eru keppni á milli fólks sem fór í MR og átti ríkan pabba og keppist um að fá að fara í ríkisstjórn með Bjarna Ben. Það eru skemmtileg partý. Ókeypis kók, barnaníð og misþyrmingar á börnum í hjólastól. Að fá að vera með í örskamma stund. Að fá að dansa við sætasta strákinn á ballinu í fimm mínútur. Jafnvel þó þú vitir að það sé ekki gott fyrir þig.

Íslensk stjórnmál eru ekki staður fyrir fólk eins og Ingu Sæland og Sönnu Magdalenu. Ekki staður fyrir fólk eins og þig. Krakkarnir eru að fásér og þeim er drullusama hvort börn í hjólastólum drepist eða ekki.

Höfundur er búsettur í Finnlandi.




Skoðun

Sjá meira


×