Erlent

Danska lög­reglan má nú nota and­lits­greiningu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Lögregla í Danmörku má þó ekki nota slíka tækni við rauntímaandlitsgreiningu.
Lögregla í Danmörku má þó ekki nota slíka tækni við rauntímaandlitsgreiningu. Getty

Lögreglan í Danmörku má nú beita svokallaðri andlitsgreiningartækni við rannsókn á sakamálum. Þannig getur lögreglan fundið og fylgst með ferðum fólks sem lýst hefur verið eftir í öryggismyndavélum.

Politiken greinir frá því að ríkisstjórn Mette Frederiksen forsætisráðherra hafi náð samkomulagi við fjóra flokka stjórnarandstöðunnar í gær. Lögregla má þó ekki nota slíka tækni í rauntíma.

„Nú er lögreglu fyrst um sinn kleift að nota meðal annars andlitsgreiningu í málum þar sem fólki er stefnt í hættu eða þegar um þjóðaröryggi er að ræða,“ er haft eftir Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra.

Mikið hefur verið rætt í Danmörku undanfarið um hvort veita eigi lögreglunni leyfi til að beita slíkri tækni sem margir eru andvígir af persónuverndarástæðum. Aukinn þungi færðist í umræðuna eftir að fréttir bárust af því að ungir drengir hefðu verið fluttir frá Svíþjóð til Danmerkur til að taka þátt í erjum danskra glæpagengja. 15 ára og 16 ára drengur hafa meðal annars verið ákærðir fyrir tilraun til manndráps í héraðsdómi Kaupmannahafnar.

„Tæknin stórbætir ekki bara rannsóknarvinnuna heldur sparar einnig tíma sem er lykilþáttur í rannsóknarvinnu,“ segir Peter Hummelgaard dómsmálaráðherra.

Flokkurinn sem var hvað mótfallnastur þessum áformum, SF, hefur gengist við að styðja leyfisveitinguna.

„Um ræðir öfluga tækni og þess vegna komum við í SF til með að fylgjast vel með hvernig yfirvöld beita henni. Okkur hefur verið lofað mati á tilrauninni,“ er haft eftir Karinu Lorentzen, þingkonu SF.

Ásamt SF-liðum studdu Danmerkurdemókratar, Íhaldsflokkurinn og Radikale Venstre leyfisveitinguna einnig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×