„Við erum enn að fara yfir málin, þar á meðal á fundi sem fulltrúar okkar og hinna þjóðanna sækja með forsvarsmönnum Eurovision eftir helgi. Fresturinn til að staðfesta þátttöku í Eurovision rennur út 15. september. Við munum tilkynna okkar ákvörðun fyrir þann tíma,“ segir Rúnar Freyr í svari til fréttastofu um málið. 15. september er sunnudagurinn í næstu viku.
Áður hefur komið fram að á sama tíma og tilkynnt verður um þátttöku í Eurovision verður tilkynnt um fyrirkomulag Söngvakeppninnar og væntanlega dagsetningar um hvenær listamenn geta sent inn atriði og fleira.
Keppnin og þátttaka Íslands var afar umdeild í ár vegna þátttöku Ísrael og stríðsins á Gasa. Fjölmargir hvöttu til sniðgöngu og var reglulega í aðdraganda keppninnar mótmælt við RÚV. Þá hríðféll áhorf á úrslit keppninnar miðað við það sem það hefur verið síðustu ár.
Sjá einnig: Áhorf á úrslit Eurovision hríðféll
Framlag Íslands, í flutningi Heru Bjarkar Þórhallsdóttur, komst ekki á úrslitakvöldið. Ísland lenti í síðasta sæti keppninnar með framlagið Scared of Heights. Gunna Dís sá um að lýsa keppninni í stað Gísla Marteins Baldurssonar sem hætti við að lýsa vegna framgöngu Ísraela á Gasa.
27 lönd hafi staðfest þátttöku
Sigurvegari keppninnar í ár var Sviss og fer keppnin fram 17. maí í Basel. Nú þegar hafa 27 ríki staðfest að þau taki þátt í keppninni, þar á meðal eru öll hin Norðurlöndin og Ísrael. Enn eiga ellefu lönd, sem tóku þátt í ár, eftir að tilkynna um þátttöku. Auk Íslands eru það Armenía, Eistland, Ástralía, Grikkland, Írland, Moldóva, Holland, Pólland, Slóvenía og Úkraína.
Eina ríkið sem hefur staðfest að það taki þátt á næsta ári, en tók ekki þátt í ár, er Svartfjallaland sem snýr aftur eftir tveggja ára hlé.
Eftir keppnina í ár sagði Rúnar Freyr að þátttaka Ísraela hafi haft neikvæð áhrif á keppnina. Hún hafi ekki verið sá sameiningarvettvangur sem hún á að vera. Hann sagðist gera ráð fyrir því að Ísland tæki þátt aftur á næsta ári en það væri alls ekkert staðfest. Eins og fram kom að ofan verður tilkynnt um þá ákvörðun í næstu viku.