Erlent

Fujimori er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Alberto Fujimori gegndi embætti forseta Perú á árunum 1990 til 2000.
Alberto Fujimori gegndi embætti forseta Perú á árunum 1990 til 2000. EPA

Alberto Fujimori, fyrrverandi forseti Perú, er látinn, 86 ára að aldri.

Fujimori tók við embætti forseta landsins árið 1990 en hrökklaðist úr embætti árið 2000 og átti síðar eftir að verða sakfelldur fyrir mannréttindabrot og spillingu.

Í frétt BBC segir að dóttir Fujimori, Keiko Fujimori, hafi staðfest andlátið og að hann hafi látist af völdum krabbameins.

Fujimori var mjög umdeldur í Perú en í stjórnartíð sinni barði hann harkalega niður uppreisnarsveitir vinstrimanna og átti síðar eftir að hljóta dóm vegna þess. Áætlað er að um 69 þúsund manns hafi látist í aðgerðunum.

Stuðningsmenn Fujimori líta svo á að hann hafi í valdatíð sinni bjargað landinu frá hryðjuverkum, valdaráni vinstrisinnaðra uppreisnarmanna og efnahagshruni, en andstæðingar hans líta svo á að hann hafi brotið niður lýðræðislegar stofnanir landsins í þeim tilgangi að tryggja eigin völd.

Eftir að forsetatíð hans lauk flúði hann land en var síðar handtekinn, framseldur, sakfelldur og látinn afplána 25 ára dóm. Honum var hins vegar sleppt á síðasta ári eftir að stjórnlagadómstóll landsins staðfesti sex ára gamla náðun forseta landsins. Hann hafði þá setið inni í fimmtán ár.

Keiko Fujimori er í dag leiðtogi stærsta stjórnmálaflokks landsins. Hún tapaði naumlega í síðustu forsetakosningum og hefur þegar tilkynnt að hún muni bjóða sig fram til forseta árið 2026.


Tengdar fréttir

Fujimori laus úr fangelsi

Alberto Fujimori, fyrrverandi forseta Perú, hefur verið sleppt eftir að hafa afplánað rúmlega fimmtán ár í fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×