Enski boltinn

Slot getur slegið met um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Slot sést hér stýra æfingu hjá Liverpool liðinu á sama tíma og það er verið að vökva grasið.
Arne Slot sést hér stýra æfingu hjá Liverpool liðinu á sama tíma og það er verið að vökva grasið. Getty/Andrew Powell

Arne Slot, nýr knattspyrnustjóri Liverpool, gæti verið búinn að endurskrifa sögu ensku úrvalsdeildarinnar eftir leik Liverpool um helgina.

Liverpool hefur unnið þrjá fyrstu deildarleikina undir hans stjórn sem voru leikir á móti Ipswich Town (2-0), Brentford (2-0) og Manchester United (3-0).

Liðið er því með fullt hús eftir þrjá leiki og hefur enn ekki fengið á sig mark því markatalan er 7-0.

Næst á dagskrá er leikur á móti Nottingham Forest á Anfield á morgun.

Vinni Liverpool leikinn og heldur markinu líka hreinu þá setur Slot nýtt met.

Enginn þjálfari í sögu ensku úrvalsdeildarinnar hefur unnið fjóra fyrstu leiki sína í deildinni án þess að fá á sig mark.

Aðeins tveir aðrir knattspyrnustjórar hafa byrjað eins vel en það voru Jose Mourinho með Chelsea árið 2004 og Sven-Göran Eriksson með Manchester City árið 2007.

Chelsea vann fyrstu fjóra leiki sína undir stjórn Mourinho en sá fjórði vannst 2-1 á móti Southampton. City tapaði 1-0 á móti Arsenal í fjórða leik Eriksson.

Slot var heppinn hvað það varðar að byrjun Liverpool á hans fyrsta tímabili var í auðveldari kantinum og hann er heldur betur að nýta sér það.

Eftir leikinn við Nottingham Forest tekur síðan við heimaleikur á móti Bournemouth og svo í framhaldinu eru útileikir við Wolverhampton Wanderers og Crystal Palace.

Næsti leikur á móti einu af stóru klúbbunum verður á móti Chelsea á Anfield 20. október eða eftir næsta landsleikjahlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×