Fótbolti

Neymar fannst hel­víti líkast að spila með Mbappé

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar og Kylian Mbappé á góðri stundu. Ekki var hins vegar allt sem sýndist í samskiptum þeirra.
Neymar og Kylian Mbappé á góðri stundu. Ekki var hins vegar allt sem sýndist í samskiptum þeirra. getty/Dan Istitene

Brasilíumaðurinn Neymar þoldi ekki að spila með Kylian Mbappé hjá Paris Saint-Germain og varaði landa sína hjá Real Madrid við honum.

Neymar og Mbappé léku saman hjá PSG á árunum 2017-23 og urðu fimm sinnum franskir meistarar með liðinu. Þrátt fyrir það á Neymar ekki góðar minningar frá tímanum með Mbappé, allavega ef marka má ummæli blaðamannsins Cyrils Hanouna.

„Brasilíumennirnir hjá Real Madrid eru vinir Neymars. Það hefur alltaf verið stríð milli þeirra Mbappés. Neymar sendi skilaboð til Brassanna og sagði þeim að þetta hefði verið hræðilegt, helvíti líkast,“ sagði Hanouna.

Fjórir Brasilíumenn leika með Real Madrid: Vinícius Júnior, Rodrygo, Éder Militao og Endrick.

Mbappé gekk í raðir Real Madrid frá PSG í sumar. Hann hefur skorað fjögur mörk í sex leikjum fyrir Madrídarliðið sem er í 3. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar. Mbappé skoraði úr vítaspyrnu þegar Real Madrid sigraði Real Sociedad, 0-2, á laugardaginn.

Neymar fór til Al-Hilal í Sádi-Arabíu í fyrra. Hann sleit krossband í hné fljótlega eftir komuna til félagsins og hefur aðeins spilað fimm leiki fyrir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×