Þetta segir Arnar Þórisson, kvikmyndagerðarmaður og yfirframleiðandi fréttaskýringaþáttarins Kveiks, sem sýndur er á Ríkisútvarpinu.
Arnar staðfesti að hann hefði verið boðaður í skýrslutöku til lögreglu í síðustu viku og hefði nú réttarstöðu sakbornings. DV greindi fyrst frá.
Málið sem um ræðir er hið svokallaða símamál og varðar síma Páls Steingrímssonar skipstjóra sem starfsmenn RÚV hafa verið sakaðir um að hafa undir höndum og fengið með misjöfnum aðferðum.
Arnar var meðal annars spurður um heimildarmann RÚV í tengslum við símann en „það var bara ekki í boði að tjá sig neitt um það,“ segir hann.
Í frétt DV segir að Þóra Arnórsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Kveiks og núverandi samskiptastjóri Landsvirkjunnar, hafi einnig verið boðuð í yfirheyrslu í síðustu viku en Arnar segist ekki hafa vitað til þess.
Arnar segir málið allt hið einkennilegasta en hann vilji lítið tjá sig að svo stöddu.
„Þetta er örugglegasta frægasti sími í heimi,“ segir hann hugsandi.
„Ég spurði bara til baka hvort einhver annar hefði prufað að fara til lögreglunnar og segjast hafa týnt símanum eða segja að honum hefði verið stolið og lögreglan rannsakað það í mörg ár,“ segir hann um yfirheyrsluna.
Samkvæmt heimildum fréttastofu gerir lögregla ráð fyrir að ljúka rannsókn sinni á næstu vikum.