Jafnt eftir markaveislu í mikil­vægum slag á fallsvæðinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jörgen Strand Larsen gerði mistök og gaf opnunarmarkið en bætti upp fyrir það skömmu síðar.
Jörgen Strand Larsen gerði mistök og gaf opnunarmarkið en bætti upp fyrir það skömmu síðar. Neal Simpson/Sportsphoto/Allstar via Getty Images

Wolverhampton Wanderers og Crystal Palace skildu jöfn, 2-2, í 10. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Wolves er því enn sigurlaust og í neðsta sæti, Palace situr í því sautjánda með sjö stig. 

Þrátt fyrir fjölda færa í fyrri hálfleik stóðu mörkin á sér. Wolves byrjaði vel og skapaði hættu við mark gestanna en þeir stóðu það af sér og fóru svo að skapa eitthvað sjálfir.

Palace fékk tvö dauðafæri í röð en miðjumennirnir Will Hughes og Daichi Kamada skutu báðir framhjá eftir fyrirgjafir frá Ismaila Sarr. Jean-Philippe Mateta fékk hættulegasta færi fyrri hálfleiks en þrumaði boltanum óvart í liðsfélaga sinn, sem var rangstæður.

Eftir markalausan en galopinn fyrri hálfleik hélt fjörið áfram í seinni.

Wolves byrjaði á því að klúðra dauðafæri, Pablo Sarabia slapp einn í gegn en þrumaði boltanum í andlit markmannsins, sem lá nokkuð lengi eftir en hélt svo leik áfram.

Fjögur mörk á tæpum tuttugu mínútum

Palace sneri vörn í sókn og skoraði opnunarmarkið á 59. mínútu eftir fyrirgjöf sem José Sá, markmaður Wolves, ætlaði að grípa en Jörgen Strand-Larsen skallaði, hann reyndi að bægja boltanum burt en hitti beint á Trevor Chalobah sem tók vel við og skoraði í autt net.

Úr hetjuNaomi Baker/Getty Images

Strand-Larsen var ekki lengi að bæta upp fyrir þau mistök og breyta Chalobah úr hetju í skúrk.

Boltanum var skipt yfir til vinstri, Chalobah misreiknaði og missti af honum, Matheus Cunha keyrði inn á völlinn, þræddi í gegn á Strand-Larsen og hann kláraði færið.

í skúrkNaomi Baker/Getty Images

Joao Gomes kom Úlfunum svo yfir aðeins fimm mínútum síðar. Matheus Cunha byrjaði sóknina með góðu hlaupi upp miðjan völlinn, lagði boltann til hægri á Goncalo Guedes sem fann Joao Gomes og hann kláraði auðvelt færi örugglega.

Palace jafnaði leikinn aftur á 77. mínútu. Markið kom upp úr hornspyrnu sem Daichi Kamada fleytti áfram á fjærstöngina, þar lúrði Marc Guéhi og lagði boltann í netið.

Bæði lið við botninn og sættust á stigið

Eftir stórfjörugan kafla og fjögur mörk róaðist leikurinn töluvert, lítið eftir á tanknum hjá báðum liðum.

Palace kom boltanum þó í netið rétt áður en lokaflautið gall, markið fékk hins vegar ekki að standa þar sem brotið var á José Sá, markmanni Wolves, í aðdragandanum.

2-2 jafntefli varð niðurstaðan. Wolves hefur ekki enn unnið leik og situr í neðsta sæti deildarinnar eftir tíu leiki. Crystal Palace hefur safnað sjö stigum og situr í 17. sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira