Upp­gjörið: ÍR - Kefla­vík 79-91 | Kanalausir Kefl­víkingar sáu til þess að ÍR fagnaði ekki fyrsta sigrinum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Halldór Garðar Hermansson kom inn í byrjunarlið Keflavíkur í stað Wendell Green, sem var látinn fara frá félaginu fyrr í vikunni. Halldór endaði stigahæstur í liðinu með 20 stig. 
Halldór Garðar Hermansson kom inn í byrjunarlið Keflavíkur í stað Wendell Green, sem var látinn fara frá félaginu fyrr í vikunni. Halldór endaði stigahæstur í liðinu með 20 stig.  vísir/Anton

ÍR tók á móti Keflavík og tapaði með tólf stigum. Lokatölur 79-91. Eftir jafna byrjun tók Keflavík forystuna undir lok fyrsta leikhluta og lét hana aldrei af hendi. ÍR gerði heiðarlega tilraun til að jafna leikinn undir lokin en var haldið í skefjum. 

Þetta var annar sigur Keflavíkur í röð eftir þrjá tapleiki í röð þar á undan, þeirra þriðji sigur á tímabilinu í heild sinni. ÍR hefur ekki enn unnið leik eftir sex umferðir. 

ÍR byrjaði ágætlega og lét boltann ganga vel milli manna en varnarleikur liðsins var virkilega slakur. Keflavík fékk greiða leið að körfunni í hvert skipti sem liðið sótti.

Atvik leiksins átti sér stað snemma

Þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta átti ÍR frábæra sókn, boltinn gekk hratt frá hægri til vinstri, aftur til baka og endaði í galopnu skoti úti í horni.

Áhorfendur risu á fætur og tóku andköf meðan boltinn sveif í loftinu, svo virtist sem skrifað væri í skýin að þetta skot færi ofan í. En körfuboltaguðirnir voru ÍR ekki hliðhollir, boltinn rúllaði nokkra hringi á hringnum áður en hann skaust upp úr körfunni.

Meðan allir ÍR-ingar hengdu haus brunaði Keflavík í sókn, setti þrist í andlitið á þeim og komst yfir. 

Bættu við forystuna þar til í lok þriðja leikhluta

Næstu sóknir ÍR gengu herfilega, það var eins og allur baráttuandi hafi horfið úr liðinu, bara því þetta eina skot fór ekki ofan í. Fyrir skotið var staðan 17-15 en hún breyttist fljótt í 26-15.

Keflavík komið með fína forystu sem liðið lét ekki af hendi fyrr en undir lok þriðja leikhluta.

ÍR var þá búið að breyta varnarskipulaginu, eða farið að fylgja varnarskipulaginu raunar. Lokuðu teignum, stóðu sterkir og hleyptu Keflavík ekki á körfuna

Þannig tók ÍR 18-0 áhlaup undir lok þriðja og byrjun fjórða leikhlutans. 

Keflavík hafði verið á þægilegri siglingu og náð mest átján stiga forystu en þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum munaði aðeins fimm stigum.

Þá rankaði Keflavík við sér og setti loksins skot, Jarrell Reischel með mikilvægan þrist. Nokkrum sóknum síðar var sigurinn svo tryggður þegar ÍR mistókst í þrígang að grípa varnarfrákast, Keflavík klóraði boltann einhvern veginn úr höndum þeirra, setti annan þrist og gerði alveg út af við leikinn. Lokatölur urðu 79-91.

Stjörnur og skúrkar

Halldór Garðar kom inn í byrjunarliðið og steig upp í stigasöfnun fyrir Keflavík í kvöld. Sigurður Pétursson og Marek Dolezaj flottir í fyrri hálfleik en fundu ekki sama takt í seinni.

Jarrell Reisch átti ekkert sérstakan leik en setti líklega mikilvægasta skotið eins og farið var yfir hér að ofan.

Hjá ÍR var fyrirliðinn Hákon Örn stigahæstur en hann missti boltann líka oft í skrítnum aðstæðum. Jacob Falko sömuleiðis kemur alltaf stigum á töfluna en tekur oft skrítnar ákvarðanir eða reynir of erfiða hluti.

Collin Anthony Pryor átti skelfilegan leik. Setti ekki eitt einasta skot og fékk tæknivillu fyrir kjaft eftir að hafa verið blokkaður tvær sóknir í röð af minni mönnum.

Stemning og umgjörð

Ágætis mæting og fjör í húsinu, enda föstudagskvöld.

Ærandi hávaði ÍR-megin, ekki þökk sé stuðningsmannasveitinni Ghetto Hooligans heldur var það einum krakka að þakka. Barnið mætti með fölskustu flautu sem heyrst hefur í og blés af alefli allan leikinn.

Ísak Wium: Orkulitlir varnarlega og vantar meiri neista í liðið

Ísak Wium er orðinn þreyttur á því að tapa. Vísir/Pawel

„[Ég segi] bara það sama og eftir alla hina leikina. Það er leiðinlegt að tapa, orðið vel þreytt,“ sagði Ísak Wium, þjálfari ÍR, eftir sjötta tapið á tímabilinu í jafnmörgum leikjum. Keflavík kom í heimsókn í kvöld og vann 91-79.

„Við bara mætum ekki til leiks. Fylgjum ekki leikplani í fyrri hálfleik varnarlega, eða erum orkulitlir varnarlega. Ástæðan fyrir því að við töpum er að þeir skora 59 stig í fyrri hálfleik,“ taldi þjálfarinn vera ástæðu tapsins.

ÍR átti gott áhlaup undir lok þriðja og byrjun fjórða leikhluta. Liðið herti vörnina í seinni hálfleik og virtist ætla að gera leikinn spennandi, en komst ekki alveg nógu nálægt gestunum.

„Ég sagði [í hálfleik] við ætlum að loka teignum, alveg eins og ég sagði fyrir leik. Munurinn er að við fáum á okkur 28 stig í teignum í fyrri hálfleik og 10 stig í seinni hálfleik. Við reynum að búa til einhverja geðveiki en við þurfum einhvern aðeins meiri neista en við höfum verið að sýna.“

ÍR hefur ekki enn unnið leik, sjáanlega og skiljanlega er þjálfarinn orðinn þreyttur á því. Hann ætlar þó ekki að láta sína menn heyra það, af ótta við að segja eitthvað sem hann mun sjá eftir.

„Ég ætla ekkert að tala við þá fyrr en við hittumst næst á æfingu. Það er ágætis regla svo ég segi ekki eitthvað sem ég sé eftir. Það er fínt að menn sofi á þessu, svo gleymum við þessu og svo getum við rifjað upp hvað þarf að fara betur á næstu æfingu.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira