Enski boltinn

Lampard sótti um starfið hjá Coventry

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frank Lampard hefur áhuga á að taka við Coventry City.
Frank Lampard hefur áhuga á að taka við Coventry City. getty/Eddie Keogh

Frank Lampard kemur til greina sem næsti knattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins Coventry City.

Coventry er í stjóraleit eftir að Mark Robins var látinn taka pokann sinn í síðustu viku. Hann hafði stýrt liðinu í sjö ár.

Eigandi Coventry, Doug King, hefur staðfest að Lampard hafi sótt um stjórastarfið hjá þeim himinbláu.

Lampard hefur verið án starfs síðan hann hætti hjá Chelsea eftir að hafa stýrt liðinu til skamms tíma vorið 2023. Hann var áður stjóri Chelsea á árunum 2019-21. Lampard hefur einnig stýrt Derby County og Everton.

Undir stjórn Robins vann Coventry sig upp úr D-deildinni í B-deildina og komst í úrslit umspils um sæti í úrvalsdeildinni í fyrra. Þar tapaði liðið fyrir Luton Town, 1-0.

Coventry er í 17. sæti ensku B-deildarinnar með sextán stig eftir fimmtán leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×