Enski boltinn

Tuchel „stelur“ Hilario frá Chelsea og tekur hann inn í teymið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Henrique Hilario hefur unnið sem markmannsþjálfari hjá Chelsea í átta ár.
Henrique Hilario hefur unnið sem markmannsþjálfari hjá Chelsea í átta ár. Getty/Alex Dodd

Thomas Tuchel er búinn að finna sér markvarðarþjálfara fyrir enska landsliðið og sá hinn sami þekkir vel til enska boltans sem og til þýska þjálfarans.

Nýi markmannsþjálfari Tuchel hjá enska landsliðinu er Portúgalinn Henrique Hilario. Þjóðverjinn tekur við enska landsliðinu 1. janúar næstkomandi.

Hilario hefur jafnframt sagt upp störfum hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea. ESPN segir frá.

Hilario er 49 ára gamall og lagði skóna á hilluna árið 2014. Hann var síðustu átta árin sem leikmaður hjá Chelsea en kom síðan aftur til félagsins árið 2016. Hilario var aðstoðarmarkvarðarþjálfari undir stjórn Antonio Conte og aðalmarkvarðarþjálfari hjá Maurizio Sarri.

Tuchel kynntist Hilario þegar hann var hjá Chelsea frá 2021 til 2022. Hann lagði mikla áherslu á að fá hann inn í enska þjálfarateymið.

Tuchel hafði þegar ráðið Anthony Barry sem aðstoðarmann sinn en þeir unnu saman hjá bæði Chelsea og Bayern München.

Þegar Enzo Maresca kom til Chelsea þá tók hann með sér annan markmannsþjálfara frá Leicester en sá heitir Michele De Bernardin. Chelsea var því með tvo markmannsþjálfara. Þetta kallar því væntanlega ekki á frekari breytingar á þjálfarateymi Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×