Enski boltinn

Ed Sheeran hjálpaði Ipswich að ná í leik­mann rétt fyrir Taylor Swift tón­leika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ed Sheeran með Taylor Swift á tónleikunum og svo auðvitað mættur í Ipswich búninginn sinn.
Ed Sheeran með Taylor Swift á tónleikunum og svo auðvitað mættur í Ipswich búninginn sinn. Getty/Gareth Cattermole/Julian Finney/

Enski tónlistarmaðurinn Ed Sheeran er ekki aðeins mikill stuðningsmaður í Ipswich Town heldur er hann einnig hluthafi í félaginu. Hann hefur líka hjálpað félaginu að sannfæra leikmenn um að koma til enska úrvalsdeildarfélagsins.

Ipswich Town sagði frá því að félagið leitaði til Sheeran til að sannfæra einn leikmann um að koma í haust. Þetta gerðist rétt áður en Sheeran fór upp á svið með Taylor Swift á Wembley leikvanginum.

Sheeran keypti lítinn hlut í Ipswich í ágúst rétt áður en félagið lék sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni frá 2002.

„Í sumar við vorum að reyna að sannfæra einn ónefndan leikmann um að koma til félagsins og áttuðum okkur strax á því að hann var mikill Ed Sheeran aðdáandi,“ sagði framkvæmdastjórinn Mark Ashton á viðburði í Miami. ESPN segir frá.

„Ed fór á Zoom og ræddi við hann. Þetta gerði hann rétt áður en hann fór upp á svið með Taylor Swift. Vonandi var það eitt af lykilatriðunum í að sannfæra hann um að koma,“ sagði Ashton.

Ashton vildi ekki segja frá því hver þessi leikmaður var. „Hann er alla vega að skora nokkur mörk fyrir okkur,“ sagði Ashton.

Sheeran og Swift voru saman á sviði á Wembley 15. ágúst dagi áður en Sammie Szmodics kom til Ipswich frá Blackburn.

Szmodics var markahæstur í ensku b-deildinni á síðustu leiktíð með 27 mörk og skoraði með bakfallsspyrnu í 2-1 sigri á Tottenham nú rétt fyrir landsleikjahlé.

Szmodics birti mynd af sér með Ed Sheeran á samfélagsmiðlum eftir þann leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×