Enski boltinn

Lewandowski fékk ekki að fara til Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Robert Lewandowski hefur verið einn allra mesti markaskorari heims um langt árabil.
Robert Lewandowski hefur verið einn allra mesti markaskorari heims um langt árabil. Getty/Pedro Salado

Pólski markahrókurinn Robert Lewandowski samþykkti árið 2012 að ganga til liðs við Manchester United en á endanum hafnaði þáverandi félag hans, Dortmund, tilboði United.

Lewandowski greindi frá þessu í hlaðvarpsþætti Rio Ferdinand sem einmitt var leikmaður United þegar félagið reyndi að fá Pólverjann.

„Ég sagði já við því að fara til Manchester United árið 2012. Ég man eftir þessu samtali við Sir Alex Ferguson. Maður gat ekki sagt nei við hann,“ sagði Lewandowski sem hefði reyndar ekki getað spilað lengi fyrir Ferguson því stjórinn sigursæli hætti hjá United ári síðar, 2013.

Lewandowski, sem er orðinn 36 ára gamall, er enn að raða inn mörkum og nú á sinni þriðju leiktíð hjá Barcelona á Spáni. Hann hefur skorað sautján mörk í nítján leikjum í vetur.

Ómögulegt er að segja til um hvernig ferillinn hefði þróast hefði Lewandowski farið til United fyrir tólf árum. Hann viðurkennir að hafa verið stressaður þegar Ferguson hringdi, vegna stöðu Ferguson í fótboltaheiminum og takmarkaðrar enskukunnáttu sinnar, en sagði já.

Töldu Lewandowski of mikilvægan

Forráðamenn Dortmund voru hins vegar á öðru máli: „Formaðurinn sagði mér að þeir gætu ekki selt mig því ég væri of mikilvægur fyrir liðið,“ sagði Lewandowski.

Hann hélt kyrru fyrir hjá Dortmund til ársins 2014 en fór þá til Bayern München þar sem hann skráði sig í metabækurnar með því að skora urmul marka og vinna fjölda titla, en hann skoraði 344 mörk í 375 leikjum áður en hann fór svo til Barcelona 2022.

Hjá Barcelona hefur Lewandowski alls skorað 78 mörk í 112 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×