Innlent

Funda vegna slæmrar veður­spár fyrir kjör­dag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ástríður Jóhannesdóttir er framkvæmdastjóri Landskjörstjórnar.
Ástríður Jóhannesdóttir er framkvæmdastjóri Landskjörstjórnar. Vísir

Landskjörstjórn fundar nú síðdegis vegna slæmrar veðurspár á kjördag á Austurlandi og Norðvesturlandi.

 Þegar hefur verið greint frá því að ef veður verður svo slæmt á kjördag að það ógni öryggi talningarfólks eða kjörgagna að fara með það á milli staða verði það ekki gert. Þannig gæti verið möguleiki á að kjörfundi verði frestað, um allt að viku.

Í samtali við fréttastofu segir Ástríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Landskjörstjórnar, að stjórnin muni funda nú síðdegis.

„Þetta er bara þannig að við þurfum bara að meta stöðuna dag frá degi. Við erum að fara yfir þær sviðsmyndir sem koma til greina. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er óvissa í kortunum og allar okkar áætlanir taka mið af veðurspám,“ segir Ástríður.

Vonir standi til að spárnar verði nákvæmari eftir því sem líður á vikuna.

„Auðvitað vill maður bara vera við öllu búinn og vera búinn að ræða þá möguleika sem koma til greina, og vonast til þess að þurfa ekki að grípa til neinna óvenjulegra ráðstafana. Veðurguðirnir þurfa bara að vera með okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×