Innlent

Loka­tölur í Reykja­vík suður: Fyrr­verandi borgar­stjóri og rit­stjóri á þing

Jón Þór Stefánsson skrifar
Þessi eru kjördæmakjörin í Reykjavík suður
Þessi eru kjördæmakjörin í Reykjavík suður vísir/hjalti

Lokatölur hafa borist úr Reykjavíkurkjördæmi suður. Samfylkingin er stærsti flokkurinn með 22,9 prósent fylgi og þrjá menn inni. Í síðustu kosningum var flokkurinn með 13,3 prósent og einn mann á þingi.

Frá Samfylkingu koma inn á þing Jóhann Páll Jóhannsson, Ragna Sigurðardóttir, og Kristján Þórður Snæbjarnarson.

Á eftir Samfylkingu koma Viðreisn, með 17,7 prósent, og Sjálfstæðisflokkur, með 17,6 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn nær tveimur kjördæmakjörnum mönnum inn. Það eru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Hildur Sverrisdóttir.

Viðreisn nær tveimur, en það eru Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Jón Gnarr.

Sjálfstæðisflokkurinn var stærstur árið 2021 með 22,8 prósent, en Viðreisn bætir mikið við sig, en flokkurinn var með 8,6 prósent síðast.

Flokkur fólksins er með 13,5 prósent og nær einum kjördæmakjörnum manni inn. Það er Formaður flokksins Inga Sæland.

Miðflokkurinn er með 10,5 prósent og nær einum manni inn. Það er Snorri Másson.

Aðrir flokkar ná ekki manni inn. Framsóknarflokkurinn var með 4,4 prósent, Sósíalistar 5,6 prósent. Lýðræðisflokkurinn, eitt prósent, Píratar, 3,9 prósent og Vinstri grænir með 2,9 prósent.

Þegar þessi frétt er skrifuð eru jöfnunarþingmennirnir þau Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir hjá Flokki fólksins og Aðalsteinn Leifsson hjá Viðreisn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×