Lokatölur fyrir Norðvesturkjördæmi bárust upp úr klukkan hálf ellefu í morgun. Kjörsókn þar var 82,3 prósent og sú hæsta þegar lokatölur lágu fyrir í öllum kjördæmum nema Suðvesturkjördæmi.
Líkt og í öðrum kjördæmum töpuðu ríkisstjórnarflokkarnir fylgi í Norðvesturkjördæmi frá því í kosningunum 2021. Framsóknarflokkurinn tapaði tveimur þingmönnum, Sjálfstæðisflokkurinn einum og Vinstri græn sínum eina þingmanni þar.
Sjálfstæðisflokkurinn hlaut átján prósent atkvæða. Ólafur Adolfsson, fyrrverandi knattspyrnumaður og lyfsali, verður þingmaður hans.
Flokkur fólksins hlaut 16,7 prósent og einn kjördæmakjörinn þingmann, Eyjólf Ármannsson sem hefur setið á þingi fyrir flokkinn. Þegar lokatölur fyrir landið allt lágu fyrir komst Lilja Rafney Magnúsdóttir inn sem jöfnunarþingmaður fyrir Flokk fólksins í Norðvesturkjördæmi. Hann verður því með flesta þingmenn kjördæmisins.
Samfylkingin hlaut 15,9 prósent atkvæða og náði Arna Lára Jónsdóttir inn á þing. Flokkurinn átti ekki þingmann í Norðvesturkjördæmi á síðasta kjörtímabili.
Miðflokkurinn fékk 14,8 prósent atkvæða og einn þingmann, Ingibjörgu Davíðsdóttur.
Þingmaður Framsóknarflokksins verður Stefán Vagn Stefánsson en flokkurinn hlaut 13,3 prósent atkvæða.
María Rut Kristinsdóttir kemur ný inn á þing fyrir Viðreisn en flokkurinn fékk 12,6 prósent í kjördæminu. Hann hafði ekki þingmann þar áður.
Fréttin var uppfærð eftir að úrslit á landsvísu lágu fyrir og Flokkur fólksins bætti við sig jöfnunarþingsæti í kjördæminu.