Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Inga Sæland formaður Flokks fólksins hafa átt formlegar stjórnamyndunarviðræður frá því á miðvikudag en þær tóku sér hlé frá fundarhöldum í gær. Þær hittust síðan aftur í dag og funduðu fram eftir degi.
Inga Sæland ræddi við fjölmiðla síðdegis fyrir hönd formannanna þriggja og sagði viðræðurnar hafa gengið vonum framar. Vinnuhópar um einstök mál taki síðan til starfa á morgun og næstu daga.

„Við erum náttúrlega aðallega að tala um stærstu málin. Við vitum öll hver þau eru. Efnahagsmálin eru auðvitað efst á baugi hjá okkur öllum og húsnæðismál, heilbrigðismál og þessi helstu mál. Á morgun byrjum við með fyrsta starfshópinn okkar en þeir verða fleiri,“ segir Inga.
Miðað við stefnu flokkanna þriggja fyrir kosningar er augljóst að ná þarf fram málamiðlunum.
Eruð þið komnar á þann stað að þið eruð sannfærðar um að þið náið að lokum saman?
„Við erum alla vega mjög bjartsýnar og á milli okkar ríkir mikið traust og hlýja.“ Viðræðurnar hafi leitt í ljós að flokkarnir ættu margt sameiginlegt og ánægjulegt að margir snertifletir væru á áherslum þeirra.
„Þar sem er kannski einhver núningur, vinnum við bara hægt og rólega með brosi á vör. Við erum að þessu til að ná saman nýrri ríkisstjórn. Það er kominn tími á að fá alvöru stjórn til að stýra landinu okkar og það er það sem við ætlum að gera,“ sagði formaður Flokks fólksins síðdegis.
Hún telji að flokkarnir þrír muni allir fá fram mál sem væru mikilvæg fyrir þeirra stefnu. Á þessum tímapunkti værihins vegar ekki rétt að tala um ágreiningsefni sem væru enn í vinnslu á milli flokkanna.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um að taka upp viðræður við Evrópusambandið, heldur þú að hún verði á dagskrá þessarar ríkisstjórnar?
„Það hefur náttúrlega meðal annars verið rætt. En ég tel ekki ástæðu til að ræða mig neitt út um það hér og nú,“ segir Inga.
Stjórnarmyndunarviðræður hafa gengið misvel í gegnum tíðina og tekið allt frá nokkrum vikum upp í nokkra mánuði.
„Ég get að minnsta kosti sagt að markmiðið er að vera alls ekki átta vikur eins og tók að smíða síðustu ríkisstjórn.“
Verður þetta jólastjórn?
„Það væri ánægjulegt, ég veit það ekki. En það væri verulega ánægjulegt.“
Þannig að þú getir mætt í jólaboð fjölskyldunnar búin að mynda nýja ríkisstjórn, er það vonin?
„Já, við lifum í voninni,“ sagði Inga Sæland.