Fótbolti

Eng­lands­meistarar Chelsea meðal liða sem vilja Cecilíu Rán

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
„Chelsea, viljið þið þessa?“ gæti samherji Cecilíu Ránar verið að segja hér.
„Chelsea, viljið þið þessa?“ gæti samherji Cecilíu Ránar verið að segja hér. Getty Images/Pier Marco Tacca

Cecilía Rán Rúnarsdóttir, landsliðsmarkvörður Íslands, hefur staðið sig frábærlega með Inter síðan hún kom þangað á láni frá Þýskalandsmeisturum Bayern München. Svo vel hefur hún spilað að Englandsmeistarar Chelsea eru meðal þeirra liða sem vilja fá markvörðinn í sínar raðir.

Mbl.is greinir frá því að góð frammistaða Cecilíu Ránar í Serie A – þar sem hún hefur aðeins fengið á sig sex mörk í 11 leikjum – hafi vakið athygli bæði innan Ítalíu sem og á Englandi og Spáni.

Í frétt mbl.is kemur fram að Þýskalandsmeistarar Bayern vilji framlengja samning 21 árs gamla markvarðarins en það stefni hins vegar í að hún geti valið úr tilboðum. Juventus, sem trónir á toppi Serie A, vill fá hana í sínar raðir.

Sömu sögu er að segja af Englandsmeisturum Chelsea, Manchester United og Real Madríd. Það er því ljóst að ef Cecilía Rán ákveður að framlengja ekki samning sinn í Þýskalandi þá getur hún valið úr tilboðum.

Cecilía Rán hefur spilað 13 A-landsleiki fyrir Ísland og haldið níu sinnum hreinu. Leikirnir væru án efa orðnir fleiri hefði hún ekki meiðst illa og misst af öllu tímabilinu 2023-24. Hún stefnir nú á að vinna sæti sitt til baka áður en Evrópumótið sem fram fer í Sviss næsta sumar hefst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×