Erlent

66 látnir í bruna á tyrk­nesku skíða­hóteli

Atli Ísleifsson skrifar
Frá vettvangi brunans í nótt.
Frá vettvangi brunans í nótt. AP

Að minnsta kosti 66 eru látnir og á sjötta tug slasaðir eftir að eldur kom upp á skíðahóteli í tyrkneska bænum Kartalkaya í norðvesturhluta landsins í nótt.

Talsmaður tyrkneskra yfirvalda segir að eldurinn hafi komið upp á veitingastað skíðahótelsins.

Samkvæmt fyrstu fréttum var tilkynnt að sex væri látnir og að á fjórða tug hefðu slasast í brunanum, en skömmu síðar var tala látinna hækkuð í tíu og svo 66. Í tyrkneskum fjölmiðlum segir að tveir hið minnsta hafi látist eftir að hafa stokkið út um glugga úr brennandi húsinu.

Frá vettvangi eftir að birta tók.EPA

Ekki liggur fyrir um upptök eldsins, en 234 gestir voru á hótelinu þegar eldurinn kom upp. Á myndum mátti sjá eld og reyk leggja frá efstu hæðum hótelsins.

Kartalkaya er vinsæll skíðabær í Koroglu-fjöllunum í Bolu-héraði í norðvesturhluta Tyrklands, um þrjú hundruð kílómetrum frá Istanbul.

Fjölmargir Tyrkir eru í fríi á þessum tíma árs þar sem vetrarfrí er í skólum og hótel mörg hver fullbókuð.

Fréttin hefur verið uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×