Í tilkynningu á vef Stjórnarráðssins segir að markmiðið sé að bregðast við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá janúar síðastliðnum í máli hóps landeigenda við Þjórsá á hendur Landsvirkjun og íslenska ríkinu.
Með dóminum var heimild Umhverfisstofnunar frá 9. apríl 2024 til breytinga á vatnshlotinu Þjórsá 1 vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Hvammsvirkjun ógilt sem og ákvörðun Orkustofnunar frá 12. september 2024 um að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka raforkuverið Hvammsvirkjun.
Dómurinn útiloki allar breytingar
„Boðaðar lagabreytingar eru að mati ráðherra nauðsynlegar til að bregðast við þeirri óvissu sem skapast hefur í kjölfar niðurstöðu fyrrnefnds héraðsdóms þar sem niðurstaðan útilokar í raun hvers kyns framkvæmdir á Íslandi sem leiða til breytinga á vatnshloti. Hér getur verið um að ræða framkvæmdir vegna vatnsaflsvirkjana og ýmsar aðrar framkvæmdir, svo sem flóðavarnir, vegagerð og gerð siglingavega svo fáein dæmi séu tekin,“ segir í tilkynningu.
Með frumvarpinu sé lagt til að skerpt verði á orðalagi a-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um stjórn vatnamála þannig að hafið sé yfir allan vafa að það taki til breytinga á vatnshloti vegna framkvæmda, svo sem vatnsaflsvirkjana. Þá sé lagt til að Umhverfis- og orkustofnun verði heimilt í sérstökum undantekningartilvikum að fallast á flýtimeðferð við afgreiðslu umsókna um virkjanaleyfi.
„Með frumvarpinu eyðum við strax óvissu og komum í veg fyrir frekari tafir á þjóðhagslega mikilvægum framkvæmdum. Þetta er í samræmi við stefnu ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um aukna orkuöflun í þágu orkuöryggis, orkuskipta og verðmætasköpunar um allt land,“ er haft eftir Jóhanni Páli.