Erlent

Fjöru­tíu og fjórar konur í Sví­þjóð látnar gangast undir ó­þarfa legnám

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fleiri mál eru til rannsóknar.
Fleiri mál eru til rannsóknar. Akademiska/Johan Alp

Svo virðist sem legnám hafi verið framkvæmt á 44 konum að óþörfu á Akademiska sjúkrahúsinu í Uppsölum. Stjórnendur greindu frá 33 óþarfa aðgerðum í fyrra en rannsókn hefur leitt í ljós ellefu til viðbótar.

„Við viljum biðja allar konurnar fyrirgefningar. Þetta átti ekki að geta gerst,“ segir yfirlæknirinn Johan Lugnegård. Hann segir mikilvægt að farið verði í saumana á málinu til að koma í veg fyrir að svona nokkuð gerist aftur.

Fyrsta athugun leiddi í ljós 33 óþarfa legnám árin 2023 og 2024, sem höfðu verið framkvæmd í kjölfar rangrar greiningar. Konurnar, á aldrinum 38 til 85 ára höfðu verið greindar með frumubreytingar, sem geta leitt til krabbameins, og ráðlagt að gangast undir legnám án þess að væri raunverulega þörf.

Ellefu bættust við þegar árinu 2022 var bætt við og enn fleiri mál eru nú til skoðunar.

Þá hefur komið í ljós að aðgerðirnar héldu áfram eftir að mistökin komust upp, á meðan málið var í meðförum innan sjúkrahússins.

Það vakti harða gagnrýni þegar málið kom upp að sjúkrahúsið skyldi ekki hafa samband við konurnar og leyfa þeim að tjá sig við rannsókn málsins. Stjórnendur sjúkrahússins báru því við að þær væru of margar en eftir umfjöllun fjölmiðla greip stjórn stofnunarinnar inn í og sagði að þær fengju að segja sögu sína.

Hér má finna umfjöllun SVT um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×