Erlent

Sér fyrir sér að selja 10 milljónir „gullkorta“ til er­lendra auðjöfra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Á sama tíma og Trump hefur skorið upp herör gegn hælisleitendum vill hann selja 10 milljón búseturétti, sem geta svo leitt til ríkisborgararéttar, á fimm milljónir dala per haus.
Á sama tíma og Trump hefur skorið upp herör gegn hælisleitendum vill hann selja 10 milljón búseturétti, sem geta svo leitt til ríkisborgararéttar, á fimm milljónir dala per haus. Getty/Alex Wong

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur greint frá fyrirætlunum um að taka upp „gullkort“ áþekkt hinu svokallaða „græna korti“, nema það verður selt auðjöfrum fyrir fimm milljónir dala.

„Þeir verða auðugir og menn sem gengur vel og þeir munu eyða miklum peningum og greiða mikla skatta og ráða mikið af fólki í vinnu og við teljum að þetta muni heppnast afar vel,“ sagði Trump í Hvíta húsinu í gær.

Viðskiptaráðherrann Howard Lutnick útskýrði að „Trump Gold Card“, eins og hann kallaði það, myndi á næstu tveimur vikum koma í stað svokallaðrar EB-5 áritunar, sem hefur verið veitt fjárfestum sem fjárfesta að minnsta kosti milljón dala í fyrirtæki sem telur að minnsta kosti tíu starfsmenn.

Lutnick sagði „svik og vitleysu“ hafa einkennt EB-5 áritanirnar, sem myndu heyra sögunni til með gullkortinu.

Gullkortið mun, eins og græna kortið, veita mönnum búseturétt í Bandaríkjunum og greiða leið þeirra að ríkisborgararétti.

Fjöldi ríkja í heiminum veitir fjárfestum sérstakar vegabréfsáritanir og/eða búseturétt. Takmörk hafa verið á því hversu margar Eb-5 áritanir hafa verið gefnar út en ekkert hefur verið rætt um slíkt í sambandi við gullkortið nýja.

Trump gerði því reyndar skóna í gær að stjórnvöld gætu „selt“ tíu milljónir gullkorta til að greiða niður skuldir ríkisins. „Kannski verður þetta frábært,“ sagði hann.

Gullkortið yrði að mörgu leyti eins og græna kortið en „fágaðra“. 

Það væri leið fyrir auðugt eða hæfileikaríkt fólk til að koma til landsins, það er að segja að fyrirtæki gætu greitt fyrir búseturétt fyrir „verðmæta“ starfsmenn sem þau vildu flytja til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×