„Við erum algjörlega í skýjunum, það er ótrúlega magnað að finna þessa samstöðu hjá þjóðinni. Þannig að þakklæti er okkur efst í huga. Við höfum fundið þetta í gegn um árin, þennan mikla stuðning frá þjóðinni, og við fundum þetta bæði í símaverinu og við að selja glossana hvað er mikill samhugur. En þetta var alveg fram úr björtustu vonum,“ segir Linda Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.
Bygging athvarfsins er þegar hafin en Linda segir að þetta dugi til að brúa bilið og klára það sem eftir er.
„Það er mjög dýrt að byggja svona hús og kostar mörg hundruð milljónir. Við erum búnar að safna lengi en okkur vantaði þennan lokahnikk og þetta var svo sannarlega það sem við þurftum, þetta mun duga til þess.“
Mikill samhugur með þolendum ofbeldis
Fjöldi fólks hefur lagt hönd á plóg í söfnuninni, bæði í þættinum í gær en líka við sölu varaglossanna, sem hafa verið í sölu síðan 20. mars. Linda segir fólk vera að senda skýr skilaboð um mikilvægi þess að standa með þolendum ofbeldis í nánum samböndum.
„Fólk vill virkilega sýna lit í því og vera saman í þessu. Það er ótrúlega mikil orka sem fylgir því inn í athvarfið, við finnum það sem störfum við þetta og þær finna það konurnar sem þurfa að leita sér aðstoðar að það eru þessi skilaboð send að þær séu ekki einar, það sé samhugur. Það er bara svo mikilvægt,“ segir Linda Dröfn.
Aldrei upplifað annan eins kraft
Hún vonar að hægt verði að flytja starfsemina inn í nýtt Kvennaathvarf vorið eða sumarið 2026. Hún þakkar forsvarskonum Á allra vörum fyrir framtakið.
„Það er búið að vera alveg ótrúlega magnað að vinna með þessum konum í Á allra vörum: Gróu, Guðnýju og Elísabetu. Það hefur kennt okkur svo margt og þvílíkan kraft hef ég aldrei upplifað. Við erum í mikilli aðdáun og miklu þakklæti sem við berum til þeirra,“ segir Linda.
„Þær náttúrulega leiddu þetta verkefni. Við höfðum kynnst þeim áður í verkefninu 2017 þegar við byggðum búsetubrú. Við vorum virkilega glaðar þegar þær ákváðu að rísa aftur upp og fara í þetta verkefni með okkur eftir góða pásu.“