Fleiri fréttir

Umhverfisátak í aprílmánuði

Umhverfisátakið Grænn apríl, sem stendur allan aprílmánuð, var sett af stað í gær. Tilgangur átaksins er að vekja Íslendinga til umhugsunar um umhverfismál og kynna grænar og umhverfisvænar vörur og þjónustu.

Nóg til af ræktanlegu landi

Landssamtök landeigenda telja enga þörf á endurskoðun jarðalaga og vara við að eigendur bújarða verði settir á klafa átthagafjötra með því að verðgildi jarða þeirra verði rýrt með vanhugsaðri lagasetningu.

Gaddafi hafnar vopnahléi

Að minnsta kosti 10 uppreisnarmenn létu lífið í loftárás bandamanna í Líbíu í gær. Loftárásin var gerð fyrir mistök en uppreisnarmennirnir höfðu skömmu áður skotið af loftvarnarbyssu loftið.

Ríkin reyndu ekki að semja

Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur vísað frá máli Georgíu gegn Rússlandi vegna þjóðernishreinsana í tveimur héruðum Georgíu, Abkasíu og Suður-Ossetíu.

Friðar flugturn í óþökk flugyfirvalda

Húsafriðunarnefnd leggur til við Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að hún friði gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli. Flugmálastjórn og Isavia, sem rekur flugvöllinn, leggjast eindregið gegn því að turninn standi áfram á sínum stað.

Framhaldsskólar öllum opnir í haust

Öllum umsækjendum í framhaldsskóla, sem eru 25 ára og yngri og uppfylla inngönguskilyrði, verður tryggð skólavist næsta haust. Þetta kemur fram í drögum að aðgerðapakka sem ríkisstjórnin kynnti fyrir aðilum vinnumarkaðarins í gær og Fréttablaðið hefur undir höndum.

Priyanka sækir um ríkisfang hér á landi

Velunnarar Priyönku Thapa hyggjast gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda henni hér á landi. Útlendingastofnun synjaði henni um dvalarleyfi í vikunni. Priyanka er 23 ára gömul nepölsk stúlka en í Nepal bíður hennar ókunnur fertugur karlmaður sem hefur keypt hönd hennar af fátækri fjölskyldunni. Ákveðið hefur verið að sækja um íslenskan ríkisborgararétt fyrir hana.

Sýnatöku úr íbúum vegna díoxíns lokið

Fyrsta hluta heilsufarsrannsóknar sóttvarnalæknis vegna díoxínmengunar frá sorpbrennslum á Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri og Vestmannaeyjum er lokið. Ákveðið var að taka sýni úr íbúum til að ganga úr skugga um hvort díoxín, sem greinst hefur í skepnum, afurðum og fóðri í nálægð við sorpbrennsluna Funa á Ísafirði, hefði náð til íbúa.

Reykræstu íbúð í Hafnarfirði

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu reykræsti íbúð á Völlunum í Hafnarfirði klukkan níu í kvöld eftir að það kviknaði í út frá kerti sem valt á hliðina.

Aprílgöbb: Hulk Hogan, Justin Bieber og frítt bensín

1. apríl er í dag og venju samkvæmt hefur verið mikið um einkennilegar fréttir víða í fjölmiðlum sem og annars staðar. Vísir ætlar að fara yfir nokkur aprílgöbb en mörg þeirra eru mjög skemmtileg.

Bensínverðið hækkað um 130 prósent síðan 2005

Fyrir sex árum var unnt að aka meðalfólksbíll frá Reykjavík og langleiðina til Egilsstaða fyrir fimm þúsund krónur. Í dag kemst hann ekki helming þessarar leiðar en bensínverð hefur nú hækkað um 130 prósent síðan 2005.

Vilhjálmur prins steggjaður á Íslandi

Vilhjálmur Bretaprins lenti hér á landi í gær en steggjapartý var haldið á Reykjavík Hilton Nordica í kjölfarið. Íslensk stelpa sem var í partýinu segir Vilhjálm meðal annars hafa sungið í karókí. Hann mun fara af landi brott á morgun.

Mesti olíufundur í sögu Noregs í áratug

Norska olíufélagið Statoil tilkynnti í dag að fundist hefði gríðarstór olíulind í Barentshafi, um tvöhundruð kílómetra norðvestur af Hammerfest. Þetta er mesti olíufundur í sögu Noregs í meira en áratug.

Færist í vöxt að fólk hræðist að bera vitni

Það færist í vöxt að fólk hræðist að bera vitni í sakamálum af ótta við hótanir ofbeldismanna. Hæstiréttur sýknaði í gær mann af ákærum um alvarlega líkamsárás eftir að meint fórnarlamb hans neitaði að bera vitni.

Meirihlutinn ætlar að segja já

Meirihluti kjósenda ætlar að samþykkja Icesave-samningaleiðina í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 9. apríl næstkomandi.

Gríðarlega mikilvægt að neyðarlögin haldi

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra segir að mikilvægur áfangi hafi náðst í dag þegar Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að neyðarlögin sem sett voru 6. október 2008 væru heimil samkvæmt stjórnarskrá. Það væri gríðarlegt áfall fyrir íslenska þjóð ef neyðarlögin myndu bresta.

Þrír fluttir á slysadeild eftir árekstur

Þrír voru fluttir á slysadeild með minniháttar áverka eftir árekstur strætisvagns og fólksbíls í Vesturbæ Reykjavíkur á fjórða tímanum í dag. Nánari fréttir af slysinu hafa ekki fengist.

Þota bresku krúnunnar lenti á Reykjavíkurflugvelli

Einkaþota bresku krúnunnar lenti á Reykjavíkurflugvelli seinni partinn í gær en mikill viðbúnaður var á vellinum að sögn sjónarvotta og öryggisverðir sáu til þess að vegfarendur kæmust hvergi nærri ferðalöngunum. Lesandi Vísis náði þó meðfylgjandi mynd af vélinni og sendi fyrir stundu. Ekki fékkst staðfest hjá flugmálastjórn í dag hver var um borð í vélinni sem flaug rakleiðis af landi brott.

Á þriðja þúsund styðja Priyönku

Ríflega 2600 manns hafa lýst yfir stuðningi við að Priyanka Thapa, 23 ára stúlka frá Nepal, fái dvalarleyfi á Íslandi. Útlendingastofnun hefur úrskurðað að Priyanka uppfylli ekki skilyrði um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Priyanka segir í viðtali í Fréttablaðinu í dag að hún hafi brostið í grát þegar hún heyrði af úrskurðinum. "Ég er ofsalega hrædd og vil ekki fara heim," segir Priyanka sem stendur frammi fyrir því að fara aftur til Nepals og giftast fertugum manni, sem hún hefur aldrei hitt, til að bjarga fjölskyldu sinni frá sárri fátækt. Í ákvörðuninni er vitnað í tölvupóst frá bróður Priyönku, sem hvetur hana til að giftast manninum, annars fari illa fyrir allri fjölskyldunni. Hún verði auk þess fjölskyldunni til skammar þar sem manninum hafi verið lofað að giftast henni. Hún er beðin um að tilkynna ákvörðun sína eins fljótt og hún geti og vinsamlegast beðin um að koma heim. Viðtalið við Priyönku má lesa í heild sinni með því að smella á tengilinn hér að neðan. Facebook-síðuna sem stofnuð var til stuðnings henni má sjá með því að smella hér.

Breskur matgæðingur gefur hákarlinum falleinkunn

Íslenskur hákarl er eins og túnfiskssallat sem maður hefur gleymt í skólatöskunni í þrjár vikur, segir Victoria Haschka, matargagnrýnandi, á fréttavefnum Huffington Post. Hún segir að hákarlinn vera eins og áfall í barnæsku. Haschka kom til Íslands á dögunum og bragðaði þá hákarlinn. Einn biti var feykinóg fyrir hana.

Árlegur fundur fingrafararannsakenda

Á vegum ríkislögreglustjóra Norðurlandanna starfar hópur sérfræðinga á sviði fingrafararannsókna í sakamálum sem hélt árlegan fund hér á landi í vikunni. Megin tilgangur með starfi hópsins er að efla þekkingu lögreglumanna sem vinna með fingraför og gefa þeim kost á að gangast undir próf sem veitir viðurkenningu til að vera sérfræðingur á þessu sviði á öllum Norðurlöndunum. Á fundinum að þessu sinni hlaut norskur starfsmaður sakamálastofnunarinnar Kripos viðurkenningu til fimm ára sem sérfræðingur í rannsókn á fingraförum.

Assange í góðu grúvi á Glaumbar

Myndband fer nú sem eldur í sinu um netheima en það sýnir stofnanda Wikileaks, Julian Assange í góðu stuði á Glaumbar árið 2009. Plötusnúðurinn Seth Sharpe sá um að þeyta skífum þetta kvöld og hann var svo hrifinn af dansfimi Assange að hann ákvað að festa hana á filmu. Fjallað var um málið á bloggsíðu Forbes tímaritsins í gær og þar er rætt við Sharpe sem segist ekki hafa ætlað að leka myndbandinu á Netið. Vinur hans hafi hinsvegar sett nokkrar ljósmyndir á netið og því hafi hann ákveðið að setja myndbandið í heild sinni í umferð.

Matreiðslumeistarar án landamæra þurfa stuðning

Verkefnið Matreiðslumeistarar án landamæra er meðal þess sem núverandi stjórn Heimssamtaka matreiðslumanna (WACS) hefur komið í framkvæmd. Markmið verkefnisins er að útvega og senda næringarrík matvæli og hreint vatn til hamfarasvæða og landa þar sem hungursneyð ríkir. Gissur Guðmundsson, forseti samtakanna, segir að náttúruhamfarir á undanförnum misserum, svo sem á Haíti og í Japan sýni glögglega hve brýnt sé að útvega bágstöddum fljótt næringarríkan mat og hreint vatn. Hann segir samtökin vilja leggja sitt af mörkum á þessu sviði og það sé hlutverk hins nýja félags WACS. Frá árinu 2008 hefur fjögurra manna framkvæmdastjórn WACSverið skipuð þremur Íslendingum auk þess sem framkvæmdastjóri samtakanna er Íslendingur. Kjörtímabili núverandi stjórnar lýkur á næsta ári og hefur þegar verið lagt að íslenska teyminu að gefa kost á sér á næsta kjörtímabili, sem stendur frá 2012 til 2016. Í núverandi stjórn eru, auk Gissurar, Hilmar B. Jónsson, varaforseti, Helgi Einarsson ritari og Norbert Schmidiger ritari frá Sviss. Framkvæmdastjóri samtakanna er Ragnar Friðriksson og hefur hann aðsetur í sendiráði Íslands í París. Í samtökunum eru um 10 milljónir matreiðslumanna í tæplega 100 aðildarfélögum um allan heim. Í tilkynningu frá samtökunum segir að brýnir hagsmunir Íslendinga knýja á um að stjórnvöld, Samtök ferðaþjónustunnar og aðrir mikilvægir hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu veiti framboði íslenska teymisins öflugan stuðning á næsta heimssþingi WACS sem fram fer í Suður-Kóreu á næsta ári. Nánari upplýsingar um samtökin má finna með því að smella hér. www.wacs2000.org <http://www.wacs2000.org>.

Sex bandarískir hermenn féllu í sömu aðgerðinni

Sex bandarískir hermenn hafa fallið í Afganistan í einni og sömu aðgerðinni sem hófst á miðvikudag og stendur enn. Þetta staðfesta talsmenn hersins en þyrlusveit hefur flogið langt inn á afkskekkt svæði í Kunar héraði þar sem Talíbanar hafa sterk ítök. Engum sögum fer af mannfalli úr röðum þeirra en sjaldgæft er að svo margir hermenn fjölþjóðaliðsins í landinu falli á svo skömmum tíma.

Mikill skortur á ljósmæðrum í heiminum

Ein af hverjum þremur konum sem fæða barn í heiminn í dag gera það án hjálpar frá ljósmóður. Í nýrri alþjóðlegri rannsókn á vegum Save the Children, eða Barnaheilla, er áætlað að ef 350 þúsund ljósmæður væru að störfum í heiminum til viðbótar við þær sem nú eru væri hægt að bjarga einni milljón barna sem látast í fæðingu á hverju ári.

Mega ekki selja bensín frá Líbíu - almenningur nýtur góðs af

Atlantsolía situr uppi með heilan skipsfarm af bensíni frá Líbíu sem félagið getur ekki selt. Ástæðan er viðskiptabann á Líbíu sem sett var á með ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var fyrir um tveimur vikum síðan. Í ljósi þess að farmurinn var lagður af stað áður en bannið var sett á er óljóst hvað gera á við hann. Ómögulegt er að skila honum sökum ástandsins í Líbíu. Sölubannið er hins vegar í gildi. Atlantsolía hefur því ákveðið að gefa íslenskum bifreiðaeigendum farminn.

Kraftmiklir Sniglar vakna af vetrardvala

Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglarnir, ætla að hefja sumarið með málþingi, þar sem við fjallað verður um hagsmunamál bifhjólamanna og hjólasumarið undirbúið. Fulltrúar allra hjólaklúbbar sem Sniglar hafa á skrá hafa verið boðaðir á fund í dag þar sem þeir taka þátt í að móta áherslur í framtíðarsýn bifhjólafólks og þannig ljá verðugum hagsmunum rödd sína, eins og það er orðað í tilkynningu. Á morgun verður málþingið opið öllum sem áhuga hafa á málinu. Dagskrána má finna hér að neðan, en málþingið fer fram á menntavísindasviði Háskóla Íslands við Stakkahlíð í Reykjavík. Að loknum erindum verða atriði á svæðinu í kring um háskólann þar sem fólki verður boðið upp á að fá smá upprifjun á hjólunum undir handleiðslu kennara og bifhjólavirkja. Þar verður hægt að prófa vespur og ef veður leyfir verður einnig hjólasýning. Hægt verður að skrá sig á námskeið í keyrslu á möl, upprifjunarnámskeið, námskeið þar sem farið er yfir aðkomu að slysi, og margt fleira. Ýmis umboð og verslanir verða með kynningar á svæðinu á vörum sínum, allt frá hjólum og hlífðarfatnaði til stoðtækja. Þegar daginn tekur að lengja fjölgar bifhjólum á vegum landsins. Af því tilefni er vakin athygli á fræðslumyndbandi frá Umferðarstofu um bifhjól í umferðinni. Smellið á tengilinn hér að ofan til að horfa.

250 ökumenn stöðvaðir

Tvö hundruð og fimmtíu ökumenn voru stöðvaðir í sérstöku umferðareftirliti lögreglunnar í miðborgi Reykjavíkur seint í gærkvöld og nótt. Sex þeirra var gert að hætta akstri en þeir höfðu neytt áfengis en voru þó undir leyfilegum mörkum.

Eplakortin áfram til sölu

Viðskiptavinir Eplakorta geta áfram keypt kort sem veita þeim aðgang að iTunes þrátt fyrir kröfu Apple Inc. um að síðu Eplakorta verði lokað. Ástæða fyrir lokuninni er sala á iTunes kortum, notkun á grafík og vörumerkjum í eigu Apple. Í bréfi sem Eplakort hafa sent viðskiptavinum sínum segir að fyrirtækið starfi áfram í eilítið breyttri mynd. "Við höfum ráðfært okkur við lögfræðinga sem fullyrða að við getum haldið áfram starfsemi, svo lengi sem við notum ekki vörumerki eða efni frá Apple, Inc. Þess vegna sjáum við ekkert því til fyrirstöðu að flytja síðuna til og opna aftur á nýjum vefþjóni. Við erum nú að vinna í þeim málum. Ef þú vilt kaupa kort í millitíðinni þá er það nú hægt á vefslóðinni www.eplakort.com/kaupa á sama hraða og áður. Þetta mál hefur engin áhrif á virkni korta sem hafa verið keypt eða verða keypt í framtíðinni á síðunni," segir í bréfinu. Þá kemur þar fram að "Upplýsingar úr íslenskum fjölmiðlum benda til þess að undirrótin að þessari aðgerð sé komin frá íslenskum hagsmunaaðilum. Við sem stöndum að baki þessari þjónustu á Eplakort.com erum Íslendingar og því finnst okkur það súrt í broti að landar okkar skuli ráðast gegn okkur til að beina þessum viðskiptum til erlendra aðila.“

Geislavirkni í grunnvatninu við Fukushima

Geislavirkni hefur nú mælst yfir hættumörkum í grunnvatni við Fukushima kjarnorkuverið í Japan þar sem enn er barist við að kæla kjarnaofnana sem fóru illa í jarðskjálftanum þann ellefta mars og flóðbylgjunni sem fylgdi á eftir.

Segir írsku leiðina farna við lausn á vanda OR

Meirihlutinn í Reykjavík og stjórn Orkuveitunnar er að leggja upp með írsku leiðina við lausn á vandamálum Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta sagði Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á aukaborgarstjórnarfundi í gær. Hún segir að menn verði að gera sér grein fyrir því að vandi OR sé ekki lausafjárvandi heldur skuldavandi.

Hvetja til mótmæla náist samningar ekki um helgina

Stéttarfélagið Framsýn á Húsavík hvetur til skipulagðra mótmæla og allsherjarverkfalla um land allt, ef ekki nást samningar við Samtök atvinnulífsins nú um helgina. Í ályktun aðalfundar félagsins í gærkvöldi segir að þolinmæði verkafólks sé löngu þrotin.

Kóbraslangan í Bronx komin í leitirnar

Baneitruð egypsk kóbraslanga sem slapp úr búri sínu í dýragarðinum í Bronx á dögunum er fundin. Skriðdýrahúsi garðsins hafði verið lokað á meðan á leitinni stóð og slangan fannst einmitt í húsinu og hafði því ekki komist langt. Hún er við góða heilsu að sögn starfsmanna dýragarðsins.

Hátt settur Líbíumaður ræddi við Breta

Hátt settur aðstoðarmaður sonar Gaddafís einræðisherra í Líbíu heimsótti London á dögunum til þess að ræða við þarlend yfirvöld, að því er fram kemur í breska blaðinu Guardian.

Lokasókn sögð hafin á Fílabeinsströndinni

Harðir bardagar geisuðu í nótt í stærstu borg Fílabeinsstrandarinnar, Abidjan á milli manna Alassane Outtara, sem Sameinuðu þjóðirnar viðurkenna sem réttkjörinn forseta, og manna Laurents Gbagbo, sitjandi forseta sem neitar að láta af völdum.

Brast í grát eftir synjunina

"Ég brast í grát þegar ég heyrði fréttirnar. Ég er ofsalega hrædd og vil ekki fara heim,“ segir Priyanka Thapa, 23 ára Nepali sem hefur verið synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á Íslandi. Priyanka stendur frammi fyrir því að þurfa að fara aftur heim til Nepals og giftast fertugum manni, sem hún hefur aldrei hitt, til að bjarga fjölskyldu sinni frá sárri fátækt.

Sjá næstu 50 fréttir