Fleiri fréttir

Grunaðir um að hafa ætlað að spilla fyrir hátíðahöldunum í London

Um 20 manns hafa verið handteknir í Bretlandi í dag, grunaðir um að hafa lagt á ráðin um að spilla fyrir hátíðahöldunum í London á morgun þegar Vilhjálmur Bretaprins gengur að eiga Kötu Middleton. Breska lögreglan réðist inn í fimm íbúðir sem hústökumenn hafa tekið yfir og í einu þeirra voru 14 handteknir.

Ók fram af brún Miklagljúfurs og lifði það af

Ungur maður þykir með þeim heppnustu á jarðarkringlunni eftir að hann ók bíl sínum fram af brún Miklagljúfurs í Bandaríkjunum og lifði það af. Bíllinn steyptist 200 fet niður í gljúfrið, eða um 60 metra, en lenti þá á tré í hlíðinni og festist þar. Manninum tókst að klifra upp á bjargbrúnina og fá aðstoð en lögreglumenn á svæðinu íhuga nú með hvaða hætti hægt verður að ná í bílinn.

Mannskæð sprenging í Marokkó

Mikil sprenging varð á aðaltorgi borgarinnar Marrakesh í Marokkó í dag. Tíu eru látnir hið minnsta og tugir slasaðir. Sprengingin virðist hafa orðið á kaffihúsi í borginni á háannatíma en Marrakesh er vinsæl ferðamannaborg í landinu. Ekki er ljóst hvort um hryðjuverk hafi verið að ræða eða einfaldlega slys, en mótmæli hafa verið í landinu síðustu mánuði þar sem krafist er að dregið verði úr völdum konungsins. Sumar fregnir herma að gashylki hafi sprungið á kaffihúsinu með þessum afleiðingum.

Ísrael hafnar samsteypustjórn palestínumanna

Búist er við að í næstu viku undirriti Fatah samtökin og Hamas samkomulag um samsteypustjórn sem á að hafa það meginverkefni að undirbúa forseta- og þingkosningar innan árs.

Verkföll stóralvarlegt mál fyrir ferðaþjónustuna

Framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar segir brýnt að kjarasamningar náist á næstu dögum ef ekki eigi að fara illa fyrir þjóðinni vegna verkfalla. Umræðan ein um verkföll geti valdið því að ferðamenn afbóki ferðir sínar til Íslands.

Icesave situr í evrópskum þingmönnum

Þingmenn Evrópuþingsins telja neitun Íslendinga á Icesave samningum geta haft slæm áhrif á umsókn okkar í sambandið. Viðræður um sjávarauðlindir okkar eru enn ekki hafnar. Þetta segir Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, en hún sat fund sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins í gær.

Hraðakstur í Hafnarfirði - áfram hátt brotahlutfall

Brot 43 ökumanna voru mynduð á Hringbraut í Hafnarfirði í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Hringbraut í suðurátt, gegnt Flensborgarskóla. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 103 ökutæki þessa akstursleið og því ók hátt í helmingur ökumanna, eða 42%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 43 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 51. Þess má geta að lögreglan hefur verið við hraðamælingar á þessum stað nokkrum sinnum áður og þá hefur brotahlutfallið jafnan verið hátt, eða 52-54% en meðalhraði hinna brotlegu hefur verið á bilinu 42-45 km/klst.

Guðlaugur Þór hótar að kæra Björn Val fyrir meiðyrði

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sent Birni Vali Gíslasyni, þingmanni Vinstri grænna, bréf þar sem honum er hótað málsókn á grundvelli meiðyrðalaga, dragi hann ekki orð sín til baka um að styrkir sem Guðlaugur hlaut, væru mútur.

Vara við aukabúnaði á vélorfum

Vinnueftirlitið varar við hættulegum aukabúnaði á vélorfum sem framleiddur er af öðrum en framleiðendum orfanna. Er þar meðal annars átt við snúningshausa með ýmsum gerðum af keðjum, keðjur með skurðarblöðum á endum eða skurðarblöðum sem fest eru við snúningshausinn með boltum eða hnoðum. „Þessi aukabúnaður eykur hættu á slysum umfram notkun nælonþráðar eða einblaða skurðarbúnaðar. Bæði er aukin hætta á að hlutar af, eða brot úr, skurðarbúnaðinum þeytist til, sem og smásteinar. Við hönnun á vélorfum er ekki gert ráð fyrir notkun slíks aukabúnaðar og sem dæmi er því hlífabúnaður orfanna ekki nægilega öflugur til að fyrirbyggja hættu af notkun slíks aukabúnaðar. Vélorfin með slíkum aukabúnaði eru því hættuleg og hefur notkun þeirra þegar valdið slysum, m.a. dauðaslysi,“ segir á vef Vinnueftirlitsins.

Sittu heima ódámurinn þinn

Boð til sendiherra Sýrlands um að vera viðstaddur brúðkaup þeirra Vilhjálms prins og Kate Middleton hefur verið dregið til baka. Boðið hefur sætt gagnrýni vegna þeirrar hörku sem stjórnvöld í Sýrlandi beita andófsmenn.

Ódýr matur er dýrkeypt blekking

Mikils tvískinnungs gætir í umræðum um velferð búfjár og matvælaverðs. "Þannig gerir jafnvel sama fólkið kröfu um að búin stækki og matarverð lækki, en hins vegar að dýrin fái að njóta eðlislægs atferlis við sem náttúrulegastar aðstæður líkt og í lífrænum búskap," segir Ólafur R. Dýrmundsson, landsráðunautur Bændasamtaka Íslands í lífrænum búskap og landnýtingu. Ólafur hélt erindi á málþingi um aðbúnað dýra í íslenskum landbúnaði sem haldinn var í Norræna húsinu á þriðjudag. "Ódýr matur er ein af dýrkeyptustu blekkingum 20. aldar," segir Ólafur. "Við verðum að gera okkur raunverulegum kostnaði við framleiðsluna og taka meira tillit til gæða og hollustu matvara." Í raun sé þannig hægt að segja að afurðir af lífrænt öldum dýrum sé á "réttu" verði á meðan ódýri maturinn sé einfaldlega ódýr þar sem kostnaðurinn hefur verið færður yfir á illa meðferð búfjár, slæma meðferð lands, mengun frá stórbúum og aukna notkun lyfja í búfjárhaldi. Við berum öll ábyrgð Það er einföld staðreynd að afurðir af dýrum sem alin eru lífrænt eru dýrari en afurðir af dýrum sem alin í svonefndum verksmiðjubúskap. Ólafur, sem einnig er formaður Dýraverndarsambands Íslands, segir að meðferð búfjár hafi versnað með árunum í því skyni að auka hagræði og lækka vöruverð. "Umfram allt verðum við að átta okkur á að ekki er við bændur eina að sakast. Mergur málsins er að við öll; þjóðfélagið, neytendur, stjórnmálamenn og fleiri, berum töluverða óbeina ábyrgð á því hvernig komið er fyrir velferð búfjár í ýmsum greinum landbúnaðar," segir Ólafur. Eitt af því sem Ólafur telur mikilvægast til að bæta velferð dýra í íslenskum landbúnaði er að auka meðvitund neytenda þannig að þeir taki sínar ákvarðanir með veskinu. "Við þurfum að upplýsa neytendur betur um framleiðsluhætti í landbúnaði og endurvekja tengsl milli sveita og þéttbýlis," segir hann.

Ennþá er óhætt að klippa trjáplöntur

Þrátt fyrir að komið sé fram í lok apríl og farið sé að örla á síðbúnu sumri er enn ekki of seint að klippa garðplöntur líkt og tré og runna.

Gyrðir á toppi metsölulistans - kiljur vinsælastar

Smásagnasafn Gyrðis Elíassonar, Milli trjánna, er komið í fyrsta sæti yfir mest seldu bækurnar á Íslandi, samkvæmt nýjum lista frá rannsóknarsetri verslunarinnar. Vinsældir Gyrðis koma ekki á óvart þar sem hann fékk fyrr í þessum mánuði bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir einmitt þessa bók. Næstar á metsölulistanum eru þýddar skáldsögur, Konan í búrinu eftir Jussi Adler-Olsen í öðru sæti, þá Morð og möndlulykt eftir Camillu Läckberg og Djöflastjarnan eftir Jo Nesbø í fjórða sætinu. Spennusaga Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig, er í því fimmta. Metsölulistinn tekur til tímabilsins frá 10. apríl til 23. apríl. Þegar farið er yfir uppsafnaða sölu frá áramótum trónir Yrsa hins vegar á toppnum. Vakin er athygli á að 10 mest seldu bækurnar eru allar kiljur. Þær sem þarna koma næst á eftir eru: Myrkraslóð eftir Åsa Larsson, Mundu mig, ég man þig eftir Dorothy Koomson, Betri næring - betra líf eftir Kolbrúnu Björnsdóttur, Furðustrandir eftir Arnald Indriðason eru í níunda sæti og loks Sumardauðinn eftir Mons Kallentoft í því tíunda. Þegar litið er sölutölur frá áramótum

Hótel mamma vaxandi vandamál í Evrópu

Margir foreldrar eiga erfitt með að sjá á eftir börnum sínum út í lífið þegar þau flytja af heiman. Það er þó ekki raunin alls staðar því víða í Evrópu er það vandamál hvað afkvæmin eru þaulsetin í heimahögunum.

Brúðkaupsæði í Japan eftir jarðskjálftann

Sérkennilegar afleiðingar í Japan eftir jarðskjálftann í mars síðastliðnum, er brúðskaupsæði sem virðist hafa gripið þjóðina samkvæmt CNN sjónvarpsstöðinni.

Deilt um yfirlýsingu vegna ofbeldis í Sýrlandi

Óeining er innan öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um viðbrögð vegna árása öryggissveita í Sýrlandi á mótmælendur. Hundruð manna hafa fallið í árásum öryggissveitanna undanfarnar vikur. Rússar eru sagðir standa í vegi fyrir aðgerðum að hálfu Sameinuðu þjóðanna.

Fatah og Hamas semja um bráðabirgðastjórn

Skriður er kominn á samningaumleitanir milli Fatah hreyfingar Abbasar forseta Palestínu á Vesturbakkanum og Hamas hreyfingarinnar á Gaza, að sögn Sveins Rúnars Haukassonar formanns samtakanna Ísland-Palestína.

David Petraeus verður yfirmaður CIA

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að hershöfðinginn David Petraeus yrði næsti yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

Skipa þarf nýja kjörstjórn innan þjóðkirkjunnar

Skipa þarf nýja kjörstjórn innan þjóðkirkjunnar til að sjá um kjör vígslubiskups eftir að síðasta kjörstjórn sagði af sér í gær, vegna mistaka sem urðu við kosningu til vígslubiskups.

Lyfjakostnaður gæti lækkað um 70 prósent

Ríkisstjórnin samþykkti í gær frumvarp frá velferðarráðherra sem ætlað er að lækka lyfjakostnað þeirr sem hvað mest þurfa á lyfjum að halda. Nái frumvarpið fram að ganga gæti lyfjakostnaður öryrkja lækkað um rúm sjötíu prósent.

Vilja færa gjaldtöku af bensíni í vegtolla

Samtök atvinnulífsins hafa kynnt ríkisstjórninni hugmynd um breytta gjaldtöku í samgöngumálum. Hugmyndin snýst um að færa gjöld af eldsneyti yfir í vegtolla, og gæti komið stórum vegaframkvæmdum af stað, er mat samtakanna. Hugmyndinni er fálega tekið af Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra sem segir að um aukna skattpíningu sé að ræða með breyttum formerkjum.

Íslenskur ríkisborgari eftirlýstur af Interpol

Margdæmdur ofbeldismaður, Chigozie Óskar Anoruo, sem er íslenskur ríkisborgari, er nú eftirlýstur af Interpol. Íslensk lögregluyfirvöld sendu beiðni til alþjóðalögreglunnar 20. apríl síðastliðinn um að lýst yrði eftir honum.

Treysta á eftirlitsmyndavélar

Lögreglan á Fjóni er enn engu nær um þann sem myrti hjónin Bjarne Johansen og Heidi Nielsen í skógi við Óðinsvé fyrir um tveimur vikum, en vonast til þess að upptökur úr eftirlitsmyndavélum komi þeim á sporið.

Ný rannsókn sýnir fjölgun örlaxa í ám

Rannsóknir Veiðimálastofnunar sýna að svokölluðum örlöxum, löxum af stærðinni 43 til 50 sentimetrar, hefur fjölgað í ám á Austur- og Norðausturlandi á undanförnum árum. Kenningar um smæð þessara laxa standast hins vegar ekki.

Tekur við af Dalaí Lama

Lobsang Sangay, þjóðréttarfræðingur menntaður í Harvard, verður forsætisráðherra útlagastjórnar Tíbeta á Indlandi. Hann tekur því við af Dalaí Lama sem pólitískur leiðtogi Tíbeta.

Obama stokkar upp í yfirstjórn hermála

Talið er að miklar mannabreytingar verði í yfirstjórn Bandaríkjahers og leyniþjónustunnar CIA í sumar í tengslum við varnarmálaráðherraskipti, sem fyrirhuguð eru þegar Robert Gates hættir.

Tortímandinn snýr aftur - orðinn 63 ára

Arnold Schwarzenegger fyrrverandi ríkisstjóri Kalíforníu, hefur samþykkt að snúa aftur í hlutverki vélmennisins í Terminator í fimmta skiptið. Þetta er í það minnsta fullyrt á heimasíðunni deadline.com. Þar segir að leikstjórinn verði Justin Lin, sem gerði Fast&Furious 5. Arnold, sem margoft hefur sagst ætla að snúa aftur, er orðinn 63 ára gamall og verður forvitnilegt að sjá hann skella sér í leðurdressið enn einu sinni.

Vígslubiskupskjör: Kjörstjórnin segir af sér

Kjörstjórn þjóðkirkjunnar hefur sagt af sér í framhaldi af því að ákveðið hefur verið að kjósa þurfi að nýju til vígslubiskups í Skálholti. Ástæða þess að kjósa þarf að nýju er að tvö atkvæði sem póstlögð voru 11. apríl voru tekin með en samkvæmt bréfi kjörstjórnar átti að póstleggja atkvæðin í síðasta lagi 8. apríl.

Stefán Einar: Hafa engan rétt til þess að halda launafólki í gíslingu

Stefán Einar Stefánsson tók formlega við embætti formanns VR á aðalfundi félagsins sem fram fer nú í kvöld. Í ræðu sinni gerði hann kjarasamningaviðræður síðustu vikna að umtalsefni og gagnrýndi Samtök atvinnulífsins harðlega og það hvernig þau hafa blandað fiskveiðistjórnunarmálum inn í samningaviðræðurnar. „Þar hafa forsvarsmenn samtakanna gengið alltof langt og alltof lengi í því að beita fyrir sig kjarasamningum á vinnumarkaði, í þeirri viðleitni sinni að hafa sitt fram. Þeir sem þar ráða för hafa engan siðferðislegan eða lagalegan rétt til þess að halda launafólki í landinu í gíslingu vegna þessa máls,“ sagði Stefán Einar.

Víst snýr Quarashi aftur

Sölvi Blöndal, forsprakki hinnar fornfrægu rappsveitar Quarashi, staðfesti í Kastljósi í kvöld að sveitin hyggi á endurkomu í sumar og að hún muni spila þann 9. júlí. Sveitin mun koma fram á Bestu útihátíðnni á Suðurlandi en endanleg staðsetning liggur ekki fyrir. Vísir greindi raunar frá þessum fyrirætlunum í lok mars en sú frétt var snarlega borin til baka af Sölva í Fréttablaðinu sem sagði hana algjörlega úr lausu lofti gripna. "Maður fer nú ekki að vekja upp þennan dauða hest. Eins vænt og mér þykir um Quarashi þá er þetta ekki að fara að gerast."

Vilja samstarfshóp um framtíðarstaðsetningu Gæslunnar

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum vill halda áfram hagkvæmnisgreiningu á flutningi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Þá vill stjórnin mynda samstarfshóp um málið þar sem sveitarfélögin á svæðinu og stjórnvöld eigi sæti.

Segir hækkunina nema 27 prósentum

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að hækkun gjaldskrár á bílastæðum við Leifsstöð nemi 27 prósentum en ekki 50 prósentum eins og Félag íslenskra bifreiðaeigenda heldur fram. Hækkunin miðast við að lagfæra í samræmi við vísitölubreytingar frá síðustu hækkun sem var að sögn Hjördísar árið 2006.

Björn að leggja lokahönd á bók um Baugsmálið

Björn Bjarnason fyrrverandi dómsmálaráðherra er að leggja lokahönd á bók sem hann hefur skrifað um Baugsmálið. Í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag sagði Björn að bókin lýsti umræðunum sem voru í blöðunum og á stjórnmálavettvangi á þessum tíma, sem voru að hans sögn tímar mikilla umbrota og átaka í íslensku samfélagi.

Stefndu á Grundartanga en vísað til Húsavíkur

Finnsku fyrirtæki, sem skoðað hefur möguleika á að reisa efnaverksmiðju á Grundartanga, hefur verið beint til Húsavíkur. Landsvirkjun kveðst nú vísa öllum áhugasömum orkukaupendum norður.

Verkfall hefði gríðarlegar afleiðingar

Formaður Rafiðnaðarsambandsins segir atvinnurekendum stríð á hendur. Verkfallsboðun um miðjan maí er nú raunverulegur möguleiki haldist afstaða SA óbreytt að mati ASÍ.

150 þúsund króna sekt fyrir að keyra á 157 í Ártúnsbrekku

Sautján ára piltur var staðinn að hraðakstri í Ártúnsbrekku í gærkvöld en bíll hans mældist þar á 157 km hraða. Kauði á nú yfir höfði sér sekt upp á 150 þúsund krónur auk þess sem hann missir bílprófið í þrjá mánuði. Þá fær hann þrjá refsipunkta í ökuferilsskrá sína. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að ekki virðist vera vanþörf á því að strákurinn hvíli skírteinið, því þrátt fyrir ungan aldur hefur hann áður verið tekinn fyrir hraðakstur.

Tekur við formennsku á umbrotatímum

"Þetta er spennandi verkefni. Það verður ekki sagt að ég sé að taka við á rólegustu tímum í sögu félagsins. Við höfum vísað kjaradeilu okkar til ríkissáttasemjara,“ segir Stefán Einar Stefánsson, sem tekur við embætti formanns VR á aðalfundi félagsins í kvöld. Hann var kjörinn í embættið í netkosningu sem lauk í lok mars.

Reykjavíkurborg metanvæðir bílaflotann

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að auglýsa eftir tilboðum í 49 fólksbifreiðar sem hafa tvíeldsneytisvél. Það er vél sem gengur fyrir metani og bensíni. Leitað er eftir kaupum á minni fólksbifreiðum, en þær verða einkum notaðar vegna heimahjúkrunar. Gert er ráð fyrir að bifreiðarnar fáist afhentar í sumar og tekur það mið af samningstíma núgildandi rekstrarsamninga.

Sjá næstu 50 fréttir