Fleiri fréttir

Vísindavefurinn opnar Evrópuvef

Alþingi hefur gert þjónustusamning við Vísindavef Háskóla Íslands um samningu og rekstur Evrópuvefs. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, opnaði vefinn í dag á Háskólatorgi og mun Evrópuvefurinn starfa í nánum tengslum við Vísindavefinn.

Hrædd um kóp í Kópavogi

Sonja Óskarsdóttir, íbúi í Kópavoginum, segist hafa miklar áhyggjur af agnarsmáum kóp sem hún fann þar í fjöru skammt frá heimili sínu síðastliðinn þriðjudagsmorgun. Hún segist fyrst hafa haldið að mamma hans hefði aðeins skroppið frá að finna æti, en nú séu liðnir rúmir tveir dagar og alltaf sé kópurinn þar aleinn og umkomulaus.

Úttektarnefnd Orkuveitu Reykjavíkur skipuð

Borgarráð hefur samþykkt að skipa þrjá einstaklinga í úttektarnefnd sem mun fara yfir málefni Orkuveitu Reykjavíkur og er nefndinni ætlað að gera óháða úttekt á þeim þáttum sem leiddu til núverandi fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Fékk grjótregn á þakið: Þetta hljómaði eins og hvellhetta

Rúður eru brotnar og þök dælduð í Bolungarvík eftir að grjóti ringdi þar yfir íbúðarhús um hádegisbilið. Ástæðan er sú að verktaki var að sprengja í fjallinu fyrir ofan þar sem unnið er að gerð snjóflóðagarðs. Nikólína Beck Þorvaldsdóttir var heima hjá sér ásamt fjölskyldu þegar grjótinu tók að rigna yfir húsið. Þeim brá skiljanlega mjög en gerðu sér í fyrstu ekki grein fyrir hvað var að gerast. Nokkuð hefur verið um sprengingar að undanförnu og hélt hún í fyrstu að þarna hefði sprenging mistekist. "Þetta hljómaði eins og hvellhetta," segir hún. Ekki er vitað til þess að slys hafi orðið á fólki. "Margir voru úti að vinna í görðunum sínum og ég þakka bara fyrir að þetta lenti ekki á neinum," segir Nikólína. Eftir því sem hún best veit eru engin hús óíbúðarhæf eftir grjóthrunið þó sum þeirra séu vissulega illa farin. Hjá henni urðu mestu skemmdirnar á þakinu þar sem gat kom í bárujárnið, jafnvel þó þar hafi ekki verið um stóra hnullunga að ræða. Þar hafi hraði grjótsins haft úrslitaáhrif þegar kom að skemmdum.

Lýst eftir vitnum að umferðaróhappi við Hörpuna

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsir eftir vitnum að umferðaróhappi sem átti sér stað á Sæbraut á móts við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpuna síðdegis fimmtudaginn 9. júní síðastliðinn. Á þessum tíma voru umferðartafir þar sem farmur hafði fallið af bifreið og lokað akreinum til austurs. Lögregla stjórnaði umferð sem var hleypt til austurs á einni akrein. Þar varð umferðaróhapp er rauðleitri Toyota Corolla station bifreið og hvítri Scania vörubifreið lenti saman. Ökumönnum bifreiðanna ber ekki saman um málsatvik og því er lýst eftir vitnum að óhappinu. Þeir sem geta varpað ljósi á málið eru beðnir að hafa samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000.

Georg Guðni: Málari eilífðarinnar

Georg Guðni myndlistarmaður féll frá um liðna helgi, langt fyrir aldur fram. Ragna Sigurðardóttir, myndlistarrýnir Fréttablaðsins, fer yfir feril listamannsins og metur áhrif hans og vægi.

Vettvangshjálparlið sett á fót á Flúðum

Samkomulag um stofnun 13 manna vettvangshjálparliðs á Flúðum var undirritað af Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Björgunarfélagi Eyvinds á Flúðum, Lögreglunni í Árnessýslu og Árnesingadeild Rauða Krossins þann 21. júní síðastliðinn.

Heyskortur blasir við í vetur

Heyskortur blasir við víða á Norðausturlandi í vetur þar sem grasspretta er mun seinni en í meðalári og tún eru sumstaðar kalin. Ráðgjafaþjónusta bænda ætlar að miðla upplýsingum um slægjumöguleika annarsstaðar.

Allt að tveggja ára biðtími eftir talmeinafræðingi

Börn sem þurfa á talþjálfun að halda geta þurft að bíða í allt að tvö ár eftir að komast að. Gífurlegur skortur er á talmeinafræðingum hér á landi. Biðin er sérstaklega löng hjá talmeinafræðingum sem eru með samning við Sjúkratryggingar Íslands enda eru þeir örfáir.

Ólafur Ragnar hrósar hinni umdeildu Söruh Palin

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kom blaðamanni Alaska Dispatch nokkuð á óvart á dögunum þegar hann hrósaði í hástert Söruh Palin, fyrrverandi ríkisstjóra Alaska og varaforsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum. Sem kunnugt er var Ólafur Ragnar eini þjóðarleiðtoginn sem Palin hafði hitt þegar hún bauð sig fram til varaforseta. "Þegar við hittumst var hún nýorðinn ríkisstjóri og við ræddum ekkert um landsmálin," segir Ólafur í viðtali við Alaska Dispatch, en hann er staddur á fjölþjóðlegri ráðstefnu í Alaska um nýjar siglingaleiðir vegna bráðnunar íss á Norðurslóðum. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur í dag, mánudaginn 20. júní, ræðu á setningarathöfn fjölþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin er í Alaska. Viðfangsefni hennar er að ræða nauðsyn framkvæmda og sérstakra framtíðaráætlana með tilliti til nýrra siglingaleiða sem bráðnun íss á Norðurslóðum mun innan tíðar hafa í för með sér. Ólafur segir að þau Palin hafi rætt um möguleika Alaska á sviði jarðvarmaorku. "Ég skynjaði hjá henni hæfileika á sviði stjórnmála, pólitíska hæfni sem fólk annað hvort hefur eða ekki. Þetta er eins og tónlistarhæfileikar. Hvort sem fólk er sammála henni eða ekki þá er það skýrt merki um hæfileika henna að á aðeins nokkrum árum hefur hún farið frá því að vera embættismaður í Alaska til þess að vera eitt áhrifamesta afl stjórnmálanna," segir Ólafur Ragnar. Blaðamaður tekur fram í greininni að aðdáun Ólafs Ragnars á Palin kunni að vekja sérstaka kátínu meðal vinstri sinnaðra stjórnmálamanna í Evrópu, en Palin er eins langt til hægri í hinu pólitíska litrófi og hægt er. Spurður hvað honum finnist um stjórnmálaskoðanir Palin segir Ólafur kíminn við blaðamann Alaska Dispatch: "Við skulum ekkert vera að ræða það neitt," og beinir umræðuefninu snarlega að loftslagsbreytingum og grænni orku.

Ný starfsstöð Fræðslunets Suðurlands

Fræðslunet Suðurlands og Rangárþing eystra undirrituðu í dag húsaleigusamning vegna nýrrar starfsstöðvar Fræðslunetsins á Hvolsvelli. Um er að ræða skrifstofu, fullbúna kennslustofu með fjarfundabúnaði og hlutdeild í sameiginlegu rými Tónlistarskóla Rangæinga og Hvolsskóla.

Náðu manni á hlaupum frá kannabisræktun

Síðastliðinn þriðjudag stöðvaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kannabisræktun í fjölbýlishúsi í Árbæ. Við húsleit fundust 36 kannabisplöntur á lokastigi ræktunar. Á meðan aðgerðum lögreglu stóð komu tveir karlmenn á staðinn og er þeir urðu varir lögreglu varir reyndi annar þeirra að komast undan á hlaupum. Hann náðist eftir stutta eftirför og voru báðir mennirnir vistaðir. Við yfirheyrslu viðurkenndu þeir aðild sína að ræktuninni. Í kjölfarið var farið í húsleit á heimili annars mannsins og fannst þar ræktunarbúnaður og þurrkað marijúana. Mennirnir eru á þrítugs- og fertugsaldri. Sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

SA segja Ögmund fara villu vegar

Samtök atvinnulífsins gagnrýna harðlega málflutning innanríkisráðherra í samgöngumálum og segja hann bókstaflega tala gegn yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar. Í pistli sem birtist á vef samtakanna er gengið svo langt að segja: „Verkstjórar stjórnarsamstarfsins hljóta að bregðast við og sjá til þess að innanríkisráðherra snúi af villu síns vegar. Takist það ekki er vart annar kostur en að fela öðrum að fara með samgöngumálin í ríkisstjórninni." Samtökin benda á að ríkisstjórnin hafi gefið út, í tengslum við gerð kjarasamninga þann 5. maí, að áfram verði unnið að útfærslu tillagna um vegaframkvæmdir á Suðvesturlandi og fjármögnun þeirra. Þá segir í pistlinum: „Yfirlýsingin er gefin af ríkisstjórninni allri og einstök atriði hennar eru samin með vitund og vilja viðkomandi fagráðherra. Þannig hefur innanríkisráðherra sem fer með samgöngumálin samþykkt og jafnvel samið sjálfur þann hluta yfirlýsingarinnar sem um vegaframkvæmdirnar fjalla. Nú hefur það komið skýrt fram á síðustu dögum að ráðherrann er á móti eigin yfirlýsingu og ætlar ekkert með hana að gera. Þá vaknar spurningin hvort ríkisstjórnin í heild og þingmenn hennar sætti sig við að ráðherrann geri alla ríkisstjórnina að ómerkingi."

Vara Lýsis um allan heim

Lýsisbragð gæti heyrt sögunni til, verði niðurstöður úr prófunum Matís á lýsi í duftformi, sem norska fyrirtækið Oil4Life hefur framleitt, jákvæðar. Í framhaldinu gæti fyrirtækið samið við Lýsi um framleiðslu.

Hjólar um Vestfirði fyrir Grensásdeild

Hjólagarpurinn, Ísfirðingurinn, og kontrabassaleikarinn Hávarður Tryggvason lagði upp í hjólreiðaferð um Vestfirði í gær til styrktar Grensásdeild sem hluti af átakinu Á rás fyrir Grensás. Hávarður lagði af stað frá Ísafirði og kvaddi Daníel Jakobsson bæjarstjóri hann á Silfurtorgi. Hávarður hjólar sem leið liggur vestur yfir heiðar, í gegnum Bíldudal og Patreksfjörð, Flókalund, innfirði Breiðafjarðar, Steinadalsheiði, Hólmavík og Ísafjarðardjúp aftur til Ísafjarðar. Alls er þetta tæplega 700 kílómetra vegalengd og 5 þúsund metrar í hækkanir yfir fjallvegi. Þeim sem vilja heita á Hávarð er bent á heimasíðu Grensásdeildar www.grensas.is <http://www.grensas.is> undir liðnum Á rás fyrir Grensás, eða á söfnunarreikning átaksins, reikningsnúmer: 311-26-3110, kennitala: 670406-1210. Í tilkynningu frá Ísafjarðarbæ er Hávarði óskað alls hins besta á leið hans um fjórðunginn.

Bónus vill afnema skilarétt á kjöti

Bónus vill afnema allan skilarétt fyrirtækisins á kjötvörum frá og með 1. nóvember. Þá taka gildi reglur samkvæmt nýrri matvælalöggjöf sem meðal annars snerta rekjanleika búfjárafurða. Bændablaðið greinir frá því í dag að Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri Bónuss hafi sent öllum kjötbirgjum fyrirtækisins erindi þar sem þetta kemur fram. Matvöruverslanir hafa almennt unnið eftir þeirri vinnureglu í samskiptum við kjötbirgja að skilaréttur sé á kjöti sem ekki selst í verslunum. Guðmundur segir í samtali við Bændablaðið að þeir sem hafa verið með skilarétt í Bónus hafi nánast haft frjálsan aðgang að verslunum, þeir panti sjálfir og ákveði magnið með tilliti til eigin birgðastöðu. "Ef þeir eiga mikið af bjúgum þá senda þeir mikið af bjúgum í búðirnar sem dæmi. Þeir gera þetta nánast eftir sínu höfði," segir Guðmundur. "Það sem mun hins vegar gerast ef skilarétturinn verður afnuminn, þá mun verslunin sjálf ákveða vöruvalið, panta sjálf og bera þá rýrnun sem verður," segir hann í Bændablaðinu. Steinþór Skúlason, forstjóri SS, fagnar frumkvæði Bónuss. Hann telur þetta jákvætt skref sem muni minnka sóun í keðunni frá framleiðanda til neytenda. Skiptar skoðanir eru þó um skilaréttinn og segir Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðenska, sem þó er í litlum viðskiptum við Bónus, að hann óttist að vöruúrval í verslunum muni minnka ef skilarétturinn verður afnuminn.

Grafa undirgöng vestan við Litlu kaffistofuna

Næstu daga verður unnið við gerð undirganga á Suðurlandsvegi, vestan við Litlu kaffistofuna. Á meðan að vinna við undirgöng stendur yfir mun umferð fara um bráðabirgðarveg við hlið framkvæmdasvæðis. Vegfarendum er bent á að hámarkshraði við framkvæmdasvæðið er 50km/klst. Vegfarendur eru hvattir til að sýna fyllstu aðgát og fylgja þeim merkingum sem uppi eru hverju sinni.

Þrisvar tekinn fullur sömu nótt

Lögreglan í Óðinsvéum í Danmörku hafði þrívegis afskipti af 28 ára gömlum manni vegna ölvunaraksturs á nokkurra klukkustunda tímabili í fyrrinótt.

Framtíð fríríkisins hefur verið tryggð

Íbúar Kristjaníu hafa ákveðið að kaupa landsvæðið sem „fríríkið“ stendur á og húsin sem á því standa af danska ríkinu og tryggja með því óbreytt búsetufyrirkomulag fyrir þá 700 sem þar búa.

Réttindi transgender fólks: Ísland á eftir

Ísland er á eftir mörgum Evrópuríkjum þegar kemur að lagalegum réttindum transgender fólks. Aftur á móti stendur Ísland vel að vígi í sambandi við réttindi réttindi samkynhneigðra og tvíkynhneigðra. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins, Thomasar Hammarbergs, sem gefin verður út opinberlega í dag. Í skýrslunni er farið ítarlega yfir lagaleg réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks í aðildarríkjum Evrópuráðsins, sem eru 47 talsins. Ísland er eitt af 27 ríkjum Evrópuráðsins sem hefur ekki innleitt sérstakan lagaramma um mismunun gegn transgender fólki. Hinsvegar er Ísland nefnt sem eitt tuttugu ríkja sem hefur yfirgripsmikinn lagaramma um mismunun gegn kynhneigð. Skilyrði um ófrjósemisaðgerð Ísland er eitt af 29 ríkjum sem setur skilyrði fyrir því að fólk gangist undir ófrjósemisaðgerð eigi að viðurkenna lagalega valið kynferði. Í Austurríki og Þýskalandi hafa dómstólar komist að því að slíkar aðgerðir brjóti gegn stjórnarskrárbundnum réttindum ríkjanna. Ísland er einnig eitt af fimmtán ríkjum sem gerir kröfu um að transgender fólk sé ógift svo hægt sé að viðurkenna valið kynferði þess. Aðstoð við tæknifrjóvgun Á hinn bóginn kemur fram að Ísland sé eitt af sjö ríkjum Evrópuráðsins sem hafi heimilað hjónaband samkynhneigðra, ásamt Belgíu, Hollandi, Noregi, Portúgal, Spáni og Svíþjóð. Ísland er líka eitt af átta ríkjum sem hafa heimilað samkynhneigðum pörum að ættleiða börn og eitt af níu ríkjum sem hafa veitt lesbískum pörum aðstoð við tæknifrjóvgun. Í tólf aðildarríkjum Evrópuráðsins fundust dæmi um að stjórnvöld höfðu bannað opinberar samkomur samkynhneigðra. Almennt um skýrsluna Skýrslan er afrakstur tveggja ára vinnu mannréttindaskrifstofu Evrópuráðsins. Hún byggir á upplýsingum frá viðeigandi stjórnvöldum, mannréttindastofnunum, félagasamtökum og sérfræðingum. Megin niðurstaða hennar er að mörg ríki Evrópuráðsins eigi enn langt í land með að viðurkenna réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks.

Leituðu að ferðamanni í Fljótsdal

Björgunarsveitarmenn á Austurlandi voru kallaðir út upp úr miðnætti til að leita að ferðamanni, sem saknað var inn af Fljótsdal.

Kraftur kominn í makrílveiðarnar

Kraftur er nú kominn í makrílveiðarnar suður af landinu og eru mörg skip þegar byrjuð veiðar. Aflinn er ýmist unninn og frystur um borð í fjölveiðiskipunum, eða landað ferskum til vinnslu í landi.

Tíu ára fangelsi í Landsrétti

Muhudiin Mohamed Geele, sem réðist inn á heimili skopmyndateiknarans Kurts Westergaard á nýársdag í fyrra, vopnaður öxi, var í gær dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir landsrétti.

Fækkar í herliðinu í Afganistan

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur tilkynnt um verulega fækkun í herliðinu í Afganistan. Forsetinn greindi frá áætluninni í ræðu í Hvíta húsinu en hún gerir ráð fyrir að fækkað verði í herliði Bandaríkjamanna í landinu um þrjátíu og þrjú þúsund menn fyrir lok september á næsta ári. Tíu þúsund hermenn munu fara frá landinu áður en þetta ár er úti og 23 þúsund á því næsta.

Vilja fjölga ferðum Herjólfs

Bæjarráð Vestmannaeyja vill að ferðum Herjólfs á milli Eyja og Landeyjahafnar verði fjölgað, ekki síst í ljósi þess hve skipið er þétt setið í hverri ferð og mörg dæmi séu um að fólk þurfi frá að hverfa þar sem skipið er fullt.

Svifu 380 kílómetra leið

Þremur svifflugmönnum á þremur svifflugum tókst í gær að svífa 308 kílómetra fyrirfram ákveðna leið, sem mun vera einstakur árangur í svifflugi hér á landi. Flugið hófst á Sandskeiði og lauk þar.

Blái herinn skorar á ráðherra

Umhverfissamtökin Blái herinn hafa sent umhverfisráðherra áskorun um að taka strax á olíumenguninni, sem fannst í fjörunni við Garðskagavita í fyrrakvöld, en Umhverfisstofnun telur ekki ástæðu til aðgerða. Hún telur að náttúran sjálf muni vinna á menguninni. Ekki er vitað hvaðan hún kemur, nema hvað hún er væntanlega komin úr einhverju skipi, sem hefur átt leið hjá. Árleg sólstöðuhátíð hefst á svæðinu í dag, en undanfarin ár hafa börn leikið sér í fjörunni, þar sem mengunin er nú.

Enn á sjúkrahúsi en ekki í lífshættu

Vélhjólamaður, sem féll á hjóli sínu á Reykjanesbraut undir kvöld í gær, er enn á sjúkrahúsi, en er ekki í lífshættu. Hann hlaut nokkur beinbrot í fallinu og missti meðvitund, en var kominn til meðvitundar um það bil sem komið var með hann á slysadeild Landspítalans. Tildrög slyssins liggja ekki fyrir og er óljóst hvort hann hefur verið á mikilli ferð.

Þrír bílar í árekstri við Hveragerði

Engin slasaðist en töluvert eignatjón varð þegar þrír bílar lentu í árekstri við hringtorgið á þjóðveginum við Hveragerði í gærkvöldi. Þar höfðu tveir bílar numið staðar þar sem vegaframkvæmdir voru í torginu. Þriðji bíllinn kom að og ók á annan bílinn, sem kastaðist áfram á þann fremsta. Fjarlægja þurfti einn bílinn með kranabíl.

Árangurslaus fundur með flugmönnum

Ekki náðist niðurstaða á löngum samningafundi flugmanna hjá Icelandair og viðsemjenda þeirar hjá Ríkissáttasemjara, sem var slitið í gærkvöldi. Annar fundur hefur verið boðaður klukkan hálf ellefu fyrir hádegi, en flugmenn hafa boðað yfirvinnubann hjá félaginu, sem hefst á morgun, náist ekki samningar fyrir þann tíma. Það gæti raskað flugi umtalsvert, því þá mega flugmenn á frívakt ekki hlaupa í skarðið ef einhver flugmaður forfallast.

Þörf á nýrri byggðaúttekt véfengd

Samþykkt var í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis á þriðjudag að óskað yrði eftir við sjávarútvegsráðuneytið að gerð verði úttekt á áhrifum fiskveiðistjórnunarkerfisins á íslenskt samfélag allt frá árinu 1991. Áhrif á íbúa og byggðaþróun verði skoðuð auk annarra samfélagslegra þátta.

„Whitey" Bulger handtekinn í Santa Monica

Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur handtekið James "Whitey" Bulger, glæpaforingja frá Boston sem hefur verið á flótta í sextán ár. Bulger var efstur á lista þeirra sem alríkislögreglan vill ná í eftir að Osama Bin Laden var drepinn í Pakistan á dögunum.

Ísland 83 prósent sammála Evrópu

Ísland tók undir 83 prósent af yfirlýsingum ráðherraráðs ESB um afstöðu sambandsins til mála víðs vegar um heiminn í fyrra, að því er fram kemur í 28. fundafrásögn samninganefndar Íslands gagnvart ESB.

Prestur skrifaði til varnar barnaníðingi

Séra Örn Friðriksson, fyrrverandi sóknarprestur Mývetninga, skrifaði félagsmálayfirvöldum bréf í september árið 1998 til varnar dæmdum kynferðisbrotamanni. Maðurinn hafði misnotað stjúpdætur sínar kynferðislega um langt skeið og var dæmdur í tveggja ára fangelsi í júní árið 1995. Hann afplánaði fangelsisdóminn á Kvíabryggju og var sleppt einu og hálfu ári síðar.

Aðhaldsaðgerðir óafgreiddar

Þótt Georgios Papandreú, forsætisráðherra Grikklands, hafi fengið meirihlutastuðning þingsins til að halda áfram að ná tökum á skuldavanda ríkisins, á hann þó enn mikið verk óunnið því ekki er öruggt að þingmeirihlutinn fallist á þær skattahækkanir og niðurskurð sem hann hefur boðað.

Amfetamínið var í ferðatösku

Karlmaður á fertugsaldri sem situr nú í gæsluvarðhaldi vegna fíkniefnasmygls var með fjögur kíló af amfetamíni í ferðatösku þegar hann var tekinn við reglubundið eftirlit í Sundahöfn.

Sex flokka stjórnin tekin við völdum

Jyrki Katainen hlaut í gær stuðning 118 þingmanna gegn 72 til myndunar sex flokka ríkisstjórnar, sem hann boðaði í síðustu viku að yrði mynduð.

Heimsmet í strumpi

Alþjóðlegi strumpadagurinn verður haldinn hátíðlegur laugardaginn 25. júní næstkomandi og mun þá samstillt átak tæplega 30 þjóða að öllum líkindum verða til þess að slá núverandi heimsmet í "strumpi".

Heppnir Norðmenn

Þrír Norðmenn höfðu heppnina með sér í Víkingalottóinu í kvöld og fær hver og einn tæplega 69 milljónir í sinn hlut.

Sjö ára ökumaður vildi hitta pabba sinn

Lögreglumenn í Detroit í Bandaríkjunum velta því nú fyrir sér hvernig sjö ára gamall drengur náði að keyra bíl stjúpföður síns 32 kílómetra. Drengurinn náði mest 80 kílómetra hraða þegar að lögreglumenn veittu honum eftirför.

Sjá næstu 50 fréttir