Fleiri fréttir

Opnað fyrir umferð á Gullinbrú

Slysið á Gullinbrú fyrr í dag virðist hafa orðið með þeim hætti að ökumaður á leið suður missti stjórn á bíl sínum og endaði á öfugum vegarhelmingi á öðrum bíl sem var á leið norður yfir brúna. Þrír aðilar voru fluttir á slysadeild og beita þurfti klippum til þess að ná tveimur einstaklingum úr öðrum bílnum. Óljóst er á þessari stundu hvort um alvareg meiðsli sé að ræða. Loka þurfti Gullinbrú um tíma en lögregla hefur nú opnað fyrir umferð að nýju.

Rannsakar birtingarmyndir kynjanna í námsbókum

Jafnréttisstofa hefur ráðið meistaranema í sálfræði til að gera útttekt á námsbókum í grunnskóla út frá birtingarmyndum kynjanna. Kristín Jónsdóttir hefur verið ráðin í sumarstarf til Jafnréttisstofu. Hún mun taka út námsbækur í samfélagsfræði á miðstigi grunnskóla út frá birtingamyndum og orðræðu um stúlkur og drengi, karla og konur. Í kjölfar úttektarinnar verður gerð skýrsla um niðurstöðurnar, ætluð yfirvöldum skólamála, kennurum og öðrum sem áhuga hafa. Þetta kemur fram á vef Jafnréttisstofu. Þar segir að allt frá 1976 hefur verið ólöglegt að hanna og nota kennsluefni sem mismunar kynjunum á einhvern hátt, en mjög lítil umræða hefur verið um hvort og hvernig hefur verið fylgst með því að þetta lagaákvæði sé virt og hvort eldra kennsluefni er tekið til mats að þessu leyti og þá hvernig. Í vetur sendi Jafnréttisstofa mennta-og menningarmálaráðuneytinu bréf þar sem ráðuneytið var minnt á eftirlitsskyldu þess varðandi útgáfu námsbóka samkvæmt 23. grein jafnréttislaga. Tilefni bréfsins var útgáfa nýlegra námsbóka í samfélagsfræði sem endurspegla mjög karllæga sýn á sögu Íslendinga þar sem kvenna er varla getið hvað þá að einhverjar séu nafngreindar. Þegar fleiri námsbækur voru skoðaðar kom í ljós að umfjöllun í samfélagsfræði viðheldur hefðbundnum hugmyndum um hlutverk kynjanna, þar sem karlar eru virkir gerendur í samfélaginu á meðan konur eru lítt sýnilegar og bundnar við heimilið. Þess má geta að Lára Hanna Einarsdóttir gerði óformlega útttekt á birtingarmyndum og hlutverkum kynjanna í námsbókum þegar hún var við nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands árið 1983. Í bloggfærslu Láru Hönnu má kynna sér verkefnið en þar hvetur hún til þess að gerð sé ítarleg útttekt á þessum málum, og virðist sem Jafnréttisstofa hafi tekið hana á orðinu. http://blog.eyjan.is/larahanna/2010/03/08/ Sjá vef Jafnréttisstofu. http://www.jafnretti.is/jafnretti/?D10cID=ReadNews&ID=812

Stofudrama í rigningunni

Götuleikhús Hins Hússins lét rigninguna ekki á sig fá, og setti upp heimasmíðaða stofu á Lækjartorgi í dag. Þar settu þau svo á svið stofudrama undir berum himni í anda unglingaþáttanna Beverly Hills 90210.

Friðarsinnar köstuðu skóm - skíðaskór voru bannaðir

Friðarsinnar fjölmenntu við Öskju, náttúrufræðihús Háskóla Íslands, í dag og köstuðu skóm til að lýsa yfir andúð sinni á varaframkvæmdastjóra Nató, Claudio Bisogniero, sem hélt þar erindi í hádeginu. Samtök hernaðarandstæðina leituðu þarna í hugmyndasmiðju blaðamannsins Muntazer al-Zaidi frá Írak sem vakti athygli fyrir nokkrum misserum þegar hann sýndi andúð sína á hernámi Bandaríkjamanna með því að kasta skóm sínum í átt að George W. Bush forseta. „SHA vilja þó árétta að samtökin eru ekki hlynnt því að skóm sé kastað í fólk og dýr. Þess vegna verður komið upp sérstökum skókastbökkum fyrir utan Öskju. Brúklegir kastskór verða á staðnum, þótt gestum sé vitaskuld heimilt að koma með sína eigin skó. (Skíðaskór, tréklossar og skór með stáltá bannaðir.)," sagði í hvatningu samtakanna fyrir mótmælin. Að mati Samtaka hernaðarandstæðinga er Nató „árásargjarnt hernaðarbandalag sem hefur þann tilgang að tryggja hagsmuni nokkurra af ríkustu og voldugustu þjóðum heims og ber ábyrgð á miklum hörmungum víða um lönd."

Bíllinn kyrrsettur þó áfengi væri undir refsimörkum

Lögreglan á Akureyri stöðvaði ökumann í nótt sem reyndist við nánari athugun vera undir áhrifum áfengis. Mælt magn áfengis reyndist vera 0,2 prómill en það er undir skilgreindum refsimörkum sem eru 0,5 prómill og mun hann því ekki eiga von á sviptingu ökuréttinda. Lögregla kyrrsetti þó bíl mannsins enda segir í lögum að akstur undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna er bannaður. Umferðarstofa og lögreglan á Akureyri vilja árétta að akstur undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna er bannaður - sama hve mikils eða lítils magns er neytt. Margir halda að það sé óhætt að aka svo lengi sem mælt magn áfengis í blóði er undir 0,5 prómillum en svo er ekki. Ef lögregla stendur ökumann að því að vera undir einhverjum áhrifum skal setja viðkomandi í tímabundið akstursbann, þótt mælt magn áfengis sé undir refsimörkum. Yfirleitt er viðkomandi bannað að aka innan eins til tveggja sólarhringa eða að minnsta kosti þar til öll áhrif áfengis eru horfin. Ástæða þessa er sú að minnstu áhrif áfengis og annarra vímuefna slæva dómgreind og athygli ökumanns og geta og hafa leitt til alvarlegra slysa.

Ljósmæður gagnrýna stefnuleysi

Skammtíma framlenging á samningi ljósmæðra við Sjúkratryggingar Íslands kemur í veg fyrir framþróun þjónustunnar segir ljósmóðir. Samningurinn hefur fimm sinnum verið framlengdur frá byrjun árs 2009. Sex mánaða framlenging á samningi ljósmæðra við Sjúkratryggingar Íslands tók gildi í dag. Þetta þýðir að foreldrum og nýfæddum börnum þeirra mun áfram standa til boða að fá heimaþjónustu ljósmæðra í allt að átta skipti eftir að komið er heim. Guðrún Guðlaugsdóttir, ljósmóðir, segir heilbrigðisyfirvöld nú hafa samið til skamms tíma, líkt og svo oft áður, en samningurinn var fyrst samþykktur í febrúar tvöþúsund og níu. „Síðan þá hefur honum verið framlengt í fjögur skipti og nú í fimmta sinn. Þetta eru skammtíma framlengingar allt frá einum mánuði upp í sex mánuði," segir hún. Guðrún telur það vera stefnuleysi að hálfu yfirvalda að stíga ekki skrefið til fulls. „Með svona skammtímalausnum að þá hefur það orðið til þess að við náum ekki markvisst að vinna að framþróun varðandi þessa þjónustu," segir hún. Hugmyndir hafa verið uppi um að færa þjónustuna undir hatt heilsugæslunnar en Guðrún telur þá breytingu ekki vænlega. „Ef ljósmæður færu að sinna þessu úr heilsugæslunni þá yrði ein ljósmóðir í dag og önnur á morgun og það er alls ekki góð þróun," segir Guðrún. Þá er hún þeirrar skoðunar að breytingin leiði ekki til fjárhagslegrar hagræðingar.

Umferðarslys á Gullinbrú - brúin lokuð til norðurs

Umferðarslys varð á Gullinbrú rétt eftir klukkan hálf tvö í dag þegar tveir bílar skullu saman. Fjölmennt lið sjúkra- og slökkviliðsmanna er á staðnum en beita þurfti klippum á báða bílana til þess að ná tveimur mönnum út. Þeir hafa verið fluttir á slysadeild til aðhlynningar en óljóst er hvort meiðsl þeirra eru alvarleg.

Ólafur og Dorrit í brúðkaupi Alberts fursta af Mónakó

Íslensku forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff eru á meðal gesta í brúðkaupi Alberts II af Mónakó en hann ætlar að kvænast suður-afrísku sunddrottningunni Charlene Wittstock í furstadæminu um helgina. Þegnar Mónakófursta hafa í áraraðir beðið eftir því að Albert prins festi ráð sitt og því ríkir mikil gleði í ríkinu litla við frönsku Rívíeruna.

Spuni slær nýtt heimsmet - toppar sjálfan sig

Stóðhesturinn Spuni bætti eigið heimsmet í dag þegar hann fékk tíu í einkunn fyrir vilja og geðslag. Spuni, sem er í eigu Finns Ingólfssonar fyrrverandi ráðherra, er hæst dæmda kynbótahross sögunnar. Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið að Spuninn sé nú metinn á um 40 til 50 milljónir. Finnur vildi sjálfur ekkert gefa út um verðmat hestsins þegar fréttastofa náði tali af honum fyrr í vikunni, og sagði ekki við hæfi að setja verðmiða á "barnið sitt" en Spuni kemur úr ræktun fjölskyldu Finns. "Þórður Þorgeirsson sýnandi Spuna sýndi hestinn snilldarlega og dró fram það allra besta í hestinum. Hann reið tölt, skeið og fet við slakan taum, sem sýndi greinilega frábært geðslag og þjálan vilja hestsins," segir á vef Landsmóts hestamanna sem nú stendur yfir á Vindheimamelum. Í forskoðun á landsmótinu fyrr í vikunni fékk hann 9,5 fyrir geðslag og vilja, og sló þá þegar heimsmet með aðaleinkunn sinni. Þessi nýja stjarna meðal íslenskra hrossa toppaði því sjálfan sig í dag. Heildareinkunn hans fyrir hæfileika er nú 9,25 sem er hæsta einkunn sem hross hefur nokkru sinni hlotið. Spuni er aðeins fimm vetra gamall og er þetta hans fyrsta mót. Hann er fyrsti hesturinn sem kemur úr ræktun fjölskyldu Finns og ljóst að hann er rísandi stjarna.

Landsdómur verði lagður niður - forseti skipi dómara

Stjórnlagaráð leggur til að Landsdómur verði lagður niður og að forseti Íslands skipi dómara og veiti þeim lausn. Þá er lagt til að náttúra Íslands verði friðhelg og hverjum og einum beri að virða hana.

Aðeins 17% flugferða Iceland Express á réttum tíma

Flugferðum Iceland Express, til og frá Keflavíkurflugvelli, seinkaði að meðaltali um klukkutíma á síðasta þriðjungi júnímánaðar. Aðeins 17 prósent af vélum félagsins héldu áætlun. Þetta er niðurstaða útreikninga á ferðavefnum Túristi. Á sama tímabili fóru tvær af hverjum þremur vélum Icelandair í loftið á réttum tíma og seinkaði flugtaki að jafnaði um tæpar tíu mínútur. Komutímar Icelandair í Keflavík stóðust í sextíu prósent tilvika. Útreikningar Túrista byggja á upplýsingum um komur og brottfarir á heimasíðu Leifsstöðvar. Sjá nánar hér. http://turisti.is/frettir/10-frettir/396-17-prosent-ferda-a-aaetlun-sidustu-10-daga.html

Bóndi ósáttur við samning um Dyrhólaey

Þorsteinn Gunnarsson, bóndi að Vatnsskarðshólum, segir gerð umsjónarsamnings um Dyrhólaey sem Umhverfisráðuneytið staðfesti í gær, vega að réttindum og stöðu landeigenda. Hann segir samninginn hafa verið gerðan án viðhlítandi samráðs.

Hjólreiðavangur opnar í Skálafelli

Skálafell Bike Park verður opnað um helgina en um er að ræða hjólreiðavang að erlendri fyrirmynd, þar sem hægt er að taka hjólið með sér í lyftu upp fjallið og hjóla svo niðu Það er Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur sem stendur að rekstrinum. Bike Park var opnað seinni part sumars í fyrra og var þá í boði ein braut, alls 2,3 kílómetra löng, með um 220 m fallhæð. Nú hefur verið bætt við annarri braut með sömu fallhæð en 3 kílómetrar að lengd. Sú braut hentar öllum, byrjendum sem og lengra komnum. Á neðri hluta svæðisins er einnig boðið upp á Dirt-Jump og BMX stökkpalla. Þá er kominn nýr mótor í lyftuna svo hún er bæði snarpari og öruggari. Til viðbótar stendur til að kortleggja og lagfæra ýmsa slóða sem liggja í átt frá svæðinu, en frá Skálafelli má hæglega hjóla niður í Kollafjörð eftir Esjurótum, yfir í Heiðmörk eftir gamla Kóngsvegi, í Kjós yfir Svínaskarð, á Þingvelli og alla leið yfir á Nesjavelli svo eitthvað sé nefnt.

Nýtt líf í miðborginni

Jón Gnarr, borgarstjóri vígði fyrir stundu þau hús sem voru enduruppgerð á mótum Austurstrætis og Lækjargötu, en húsin þrjú eyðilögðust í eldsvoða árið 2007. Fjölmargir rekstraraðilar hafa nú þegar hafið starfsemi í byggingunum en Reykjavíkurborg er eigandi þeirra. Því næst opnaði borgarstjóri göngugötuna í Austurstræti en þar hafa staðið yfir miklar framkvæmdir og endurnýjun til að gera götuna tilbúna fyrir iðandi mannlíf í miðborginni. Þar með var verki borgarstjóra ekki lokið því að þessu loknu gekk hann upp á Laugarveg þar sem hann opnuð var svonefnd sumargata Laugarvegarins, göngugata frá Vatnsstíg að Skólavörðustíg. Stefnt er að því að þessi hluti Laugavegar verði lokaður fyrir bílaumferð til 1. ágúst.

Jónmundur: "Hér hefur engum verið úthýst“

Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, vísar því alfarið á bug að Valhöll sé orðinn að einhverjum einkaklúbbi eftir að nýir starfsmenn tóku við flokksstarfinu og rekstri Valhallar. Hann segir alla sjálfstæðismenn velkomna í Valhöll, hér eftir sem hingað til. Og hafnar því alfarið að "grasrót“ flokksins sé ekki velkomin í málefnastarfið.

Kannabis í Kópavogi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði kannabisræktun í iðnaðarhúsnæði í Kópavoginum í fyrradag. Í tilkynningu segir að við húsleit hafi lögreglumenn fundið 155 kannabisplöntur á misjöfnu stigi ræktunar og lítilræði af marijúana.

Fíkniefnamál í Grafarvogi

Karlmaður á fimmtugsaldri var handtekinn í gær eftir að talsvert magn af ætluðu amfetamíni fannst á heimili hans í Grafarvogi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Ráðist á Frakklandsforseta

Þrjátíu og tveggja ára gamall maður hefur verið handtekinn í Frakklandi fyrir að ráðast á Nicolas Sarkozy forseta og reyna að draga hann yfir öryggisgirðingu. Forsetinn var í heimsókn í bæn um Brax í suðvesturhluta landsins og gekk meðfram girðingunni og heilsaði upp á fólk.

Gísli Marteinn lék borgarstjóra

„Það var heiður fyrir mig að taka þátt í þessu,“ segir borgarfulltrúinn Gísli Marteinn Baldursson. Hann steig óvænt upp á svið með hljómsveitinni Skakkamanage á Bakkusi í fyrrakvöld og fór með rullu borgarstjóra í laginu Colonial.

Grasrótin ekki velkomin í Valhöll

Fólki líkar ekki hvernig Valhöll er stýrt og upplifir sig ekki lengur velkomið á flokksskrifstofu Sjálfstæðisflokksins eftir að Jónmundur Guðmarsson settist í framkvæmdastjórasætið. Greint var frá þessu í DV í dag. Fundur kjördæmisráðs hefur verið færður úr Valhöll.

Borgarlandið óvenjulega loðið

Ófáir hafa orðið varir við samdrátt í slætti í landi Reykjavíkurborgar, en niðurskurðarhnífurinn hefur borið niður þar eins og víða annars staðar í kreppunni. Umferðareyjar og spildur víða í borginni þykja heldur loðnar, enda er slegið sjaldnar núna en fyrir hrun.

Fíkniefni tekin á Akureyri

Lögreglan á Akureyri tók í nótt ökumann úr umferð, grunaðan um akstur undri áhrifum fíkniefna.

Loksins sól og blíða fyrir norðan

Sjö stiga hiti var á Akureyri klukkan sex í morgun og fór ört hækkandi eftir að sólin kom upp á heiðum himni. Þar er búist við sól og blíðu með góðum hita í austlægri átt í dag, eftir þrálátar norðanáttir nær allan júní mánuð.

Um 250 ofbeldismenn skulda fórnarlömbunum bætur

Ofbeldismenn sem ekki hafa greitt fórnarlömbum sínum bætur samkvæmt ákvörðun bótanefndar eru 247 talsins, sex konur og 241 karl, að því er Erna Jónmundsdóttir, deildarstjóri hjá innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar hjá Sýslumanninum á Blönduósi, greinir frá.

Kommúnistaflokkur Kína níræður í dag

Kommúnistaflokkur Kína heldur upp á 90 ára afmæli sitt í dag. Alls eru meðlimir flokksins um 80 milljónir talsins og því er flokkurinn stærsta stjórnmálaafl heimsins.

Átján holu fótboltagolfvöllur opnaður

„Það hafa stundum verið settar upp þrautir, nokkrar holur, sem hafa verið uppi í nokkra daga, en þetta er fyrsti átján holu völlurinn," segir Sveinbjörn Ásgrímsson hjá Ölfus sporti. Fyrirtækið hefur opnað í Þorlákshöfn fyrsta fótboltagolfvöllinn á landinu.

Vill efla kynferðisbrotadeildina

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra vill efla kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og gera hana ráðgefandi fyrir önnur embætti á landinu. Deildin muni ekki taka yfir rannsóknir heldur verða öðrum embættum til halds og trausts.

Ljúka ekki tannviðgerðum

Tryggingastofnun samþykkti umsóknir um gjaldfrjálsar tannviðgerðir fyrir 1.056 börn tekjulágra foreldra. Ekki mun takast að ljúka viðgerð á tönnum allra þessara barna í sumar, að því er Teitur Jónsson, forseti tannlæknadeildar Háskóla Íslands greinir frá. Átaksverkefni velferðarráðuneytisins er tímabundið og fer fram á tannlæknadeildinni í Læknagarði meðan hlé er á kennslu.

Fæðuval þorsksins tekur breytingum

Töluverðar breytingar hafa orðið á fæðu þorsks á Íslandsmiðum á síðasta aldarfjórðungi. Minnkandi stofnar loðnu og rækju undanfarin tíu til fimmtán ár hafa valdið því að meðalþyngd þorsks hefur dregist saman síðustu tíu ár. Þetta eru niðurstöður rannsókna Ólafs K. Pálssonar og Höskuldar Björnssonar, sérfræðinga hjá Hafrannsóknastofnun.

Bretar mótmæla niðurskurði

Um 750 þúsund opinberir starfsmenn í Bretlandi lögðu niður vinnu í gær. Margir þeirra tóku þátt í mótmælaaðgerðum í London og víðar um landið. Starfsemi lá meira eða minna niðri í skólum, hjá dómstólum, á skrifstofum skattstjóra og vinnumiðlunum en allt ætti þetta að komast í samt lag aftur í dag, þegar vinna hefst að nýju.

Enginn vafi talinn á ásetningi Hauks Þórs

Haukur Þór Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbankans, var í gær dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt. Hann var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa millifært rúmar 118 milljónir króna af reikningi félags í eigu Landsbankans inn á eigin reikninga 8. og 9. október 2008. Haukur var prókúruhafi fyrir félagið, sem var skráð á Ermarsundseyjunni Guernsey, en í málsvörn sinni sagðist hann hafa millifært fjármunina þar sem honum þótti líklegt að eignir erlendra félaga myndu brenna upp hér á landi. Hann hafi því viljað koma fénu í öruggt skjól á íslenskum reikningi í eigu Íslendings.

Bandaríkjaþing frestar fríinu

Harry Reid, leiðtogi meirihluta demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings, segir það hafa orðið niðurstöðu þingmanna að fresta sumarfríinu, sem átti að hefjast eftir helgi.

Sjá næstu 50 fréttir