Fleiri fréttir

Með kústana á lofti í Lundúnum

Svo virðist sem almenningur í Bretlandi hafi tekið afstöðu með yfirvöldum og lögreglunni vegna óeirðanna sem skekið hafa borgir landsins undanfarna daga.

Nokkuð vissir um að Breivik hafi ekki átt vitorðsmenn

Með hverjum deginum sem líður verður norska lögreglan æ vissari um að fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik hafi verið einn að verki þegar hann lét til skarar skríða með skotárás í Utöya og sprengitilræði í miðborg Oslóar í síðasta mánuði. Þetta sagði lögmaður norsku lögreglunnar, Christian Hatlo, á blaðamannafundi í dag. Að hans sögn eru engir aðrir grunaðir um að hafa verið í vitorði með Breivik.

Geðlæknar ekki alltaf fyrsta úrræðið

Breyta þarf heilbrigðiskerfinu þannig að geðlæknar séu ekki alltaf fyrsta úrræðið segir talsmaður sjúklinga á geðsviði Landspítalans. Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrir helgi að geðlæknar anni ekki eftirspurn og veikir einstaklingar þurfi stundum að bíða í allt að þrjá mánuði eftir tíma. Bergþór Grétar Böðvarsson talsmaður sjúklinga á geðsviði Landspítalans segir vanta upp á að kynna þeim sem leiti eftir slíkri þjónustu önnur úrræði, en sjúklingar geti til að mynda leitað til sálfræðinga, iðjuþjálfa og félagsráðgjafa „Þarna eru aðilar sem geta veitt fólkinu viðtal og stuðning jafnvel," segir Bergþór. Hann segir sjúklinga eiga rétt á að fá upplýsingar hjá heilsugæslustöðvum um öll þau úrræði sem eru í boði en þar sé potturinn brotinn. „Fólk fer til heimilislæknis og ef að sá læknir er ekki nógu duglegur að upplýsa fólk um möguleg úrræði, og vísa fólki á önnur úrræði, þá er viðkomandi vísað hingað niður eftir, vísað á geðlækni, sem er löng bið eftir," segir hann. Bergþór telur marga sjúklinga vissulega þurfa á hjálp geðlækna að halda, en að önnur úrræði geti gagnast þeim á meðan þeir bíði eftir að komast að.

Ökumaður handtekinn fyrir lygi

Karl á þrítugsaldri var handtekinn eftir að hafa verið staðinn að hraðakstri á Vesturlandsvegi í Reykjavík síðdegis í gær. Tilefni handtökunnar var ekki hraðaksturinn, enda ekki um ofsaakstur að ræða, heldur var það lygi ökumannsins sem leiddi til handtökunnar.

54 látnir eftir sjóslys í Indlandshafi

Að minnsta kosti 54 eru nú látnir eftir að bát hvolfdi nálægt Comoros eyjum í Indlandshafi í gærmorgun. Forseti eyjanna hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna slyssins.

Tíu mínútur til Kaupmannahafnar

Bandaríkjaher fer í dag í annað reynsluflug á nýrri flugvél sem getur flogið á tuttuguföldum hljóðhraða. Það er mjög lauslega um 20 þúsund kílómetrar á klukkustund. Flug frá Reykjavík til Kaupmannahafnar á slíkri vél tæki um 10 mínútur.

Styrkleikastuðull sólarinnar fór yfir fjóra um helgina

Á heiðskírum sumardögum er mikilvægt að muna eftir sólarvörn því styrkleiki sólar getur verið hættulegur ef nýta á hvern einasta sólargeisla. Veðrið hefur leikið við landsmenn undanfarna daga og hafa útistaðir kaffihúsa, garðar og Nauthólsvíkin verið þéttsetin af sólarþyrstum Íslendingum sem vilja nýta þessa fáu sumardaga til hins ítrasta. Húðlæknastöðin setti nýlega upp mælingu á útfjólubláum stuðli sem segir til um styrkleika sólarinnar, þeim mun hærri stuðull þeim mun hættulegri er sólin. Samkvæmt þeirra mælingum hefur sólin verið mjög sterk undanfarna daga. Til að mynda fór stuðullinn yfir fjóra um helgina sem þýðir að einstaklingur með venjulega húð megi einungis vera í um klukkutíma og korter utandyra án þess að byrja að roðna. Þá getur einstaklingur með viðkvæma húð einungis verið í um hálftíma úti án sólarvarnar ef hann vill ekki roðna. Sextíu prósent úfjólublárra geisla fáum við milli hálf tólf og hálf fjögur á daginn og því nauðsynlegt að vera með sólarvörn, sólgleraugu og hatt ef dvelja á lengi úti í sólinni. Hægt er að fræðast um útfjólubláan stuðul og fylgjast með styrkleika sólarinnar á heimasíðu húðlæknastöðvarinnar. i: http://www.hls.is/page68/index.html

Ágreiningur um atvinnuuppbyggingu veldur töfum

Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ segir ágreining ráðherra um atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi tefja fjárfestingu á svæðinu. Hann óttast að einkasjúkrahús á Reykjanesi verið aldrei að veruleika.

Fundu fálkaungann ósjálfbjarga við þjóðveginn

Fálkafjölskylda hafði komið sér vel fyrir garði einum við Skessugil á Akureyri og fengu ungarnir reglulega kennslustundir í flugi. Hjónin Áslaug ÓLöf Stefánsdóttir og Oddgeir Sigurjónsson nutu þess að geta fylgst með tignarlegum fuglunum út um gluggann hjá sér. Það var síðan í gær sem þau fundu einn fálkaungann ósjálfbjarna og afræktan niðri við þjóðveg, og hvorki hinir ungarnir né foreldrarnir sjáanlegir. Áslaug tók meðfylgjandi myndir af fálkaunganum, en eftir að hafa gist fangagleymslur lögreglunnar á Akureyri í nótt er fálkinn nú kominn til Reykjavíkur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn.

Hjón unnu 26 milljónir: Stórt brúðkaupsafmæli á næstunni

Það voru lukkuleg hjón sem komu til Getspár í morgun með vinningsmiðann góða frá síðustu helgi. Hjónin sem eiga 6 uppkomin börn keyptu miðann í Happahúsinu Kringlunni og höfðu svo sannarlega heppnina með sér í það skiptið þar sem þau voru þau einu sem voru með allar 5 tölurnar réttar. Þau áttu nokkra miða og fengu útprentun á réttum vinningstölum og fóru sjálf yfir miðana. Það var síðasta röðin á síðasta miðanum sem gaf þeim rúmlega 26 milljónir í vinning. Miðinn var 10 raða sjálfvalsmiði með Jóker og er þetta í fyrsta sinn sem þau vinna þann stóra í Lottóinu en þau spila alltaf með bæði í Lottó og Víkingalottó. Hjónin, sem eiga stórt brúðkaupsafmæli á næstunni, ætla að gera vel við sig í í tilefni afmælisins en sögðu annars að Lottóvinningurinn væri frábær varasjóður við eftirlaunin þegar þar að kæmi

Skotið við landamæri Norður- og Suður Kóreu

Suður kóreski herinn skaut í dag viðvörunarskotum eftir að fallbyssuskot frá Norður Kóreumönnum hafnaði skammt frá landamærunum, en hermenn sunnan við landamærin segjast hafa heyrt í þremur fallbyssuskotum og séð eitt þeirra falla nálægt landamæralínunni.

FÍB: Enn svigrúm til bensínlækkana

FÍB telur að íslensku olíufélögin hafi svigrúm til að lækka lítraverðið hér um nokkrar krónur, þrátt fyrir að olíuverð á heimsmarkaði fari nú heldur hækkandi á ný.

Kínverjar sjósetja flugmóðurskip

Kínverjar hafa sjósett flugmóðurskip, hið fyrsta í sögu landsins. Um er að ræða gamalt Sovéskt skip sem þeir keyptu árið 1998 og hafa verið að endurbyggja. Talið er nær öruggt að þeir ætli sér að koma upp flota svipaðra skipa og styrkja þar með stöðu sína á heimshöfunum.

Hveragerði blómstrar um helgina

Bæjarhátíð Hveragerðisbæjar, sem ber nafnið Blómstrandi dagar, verður haldin nú um helgina, og munu bæjarbúar sameinast um að skreyta hverfi sín og garða í öllum regnbogans litum.

Búist við töfum á Sæbraut vegna malbikunar

Búast má við töfum á umferð um Sæbraut vegna malbikunar milli Laugarnesvegar og Langholtsvegar fram eftir degi í dag. Í framhaldi af því verður Reykjanesbraut malbikuð frá Sprengisandi við Bústaðaveg að Breiðholtsbraut. Lögreglan beinir því til ökumanna að virða vegmerkinga og fara að öllu með gát. Þessu til viðbótar þá var í morgun byrjað að fræsa og malbika Bæjarháls milli Hraunbæjar og Stuðlaháls. Þar má búast við töfum á umferð og því er skynsamlegt fyrir ökumenn að finna sér hjáleið í gegnum iðnaðarhverfið norðan megin við Bæjarhálsinn í stað íbúðahverfisins að sunnanverðu. Þá er vakin athygli á því að malbikun er lokið á Miklubraut, en búist var við að þar yrði malbikað fram á fimmtudag.

Klappstýra í liði Bonds á móti Íslandi

"Ég fel Obama forseta það verkefni að grípa til harðra aðgerða gegn Íslandi vegna villimannslegra hvalveiða þjóðarinnar," segir leikkonan Hayden Panettiere í yfirlýsingu.

Stóraukin sala á kylfum á breska Amazon

Sala á lögreglukylfum hefur aukist um tæp 20 þúsund prósent á breska söluvefnum Amazon.co.uk., karatekylfur hafa rokið upp um 11 þúsund prósent, og sala á hafnaboltakylfum úr áli hefur aukist um rúm átta þúsund prósent.

Mikið af fölsuðum varningi í umferð

Mikið magn af fölsuðum varningi er flutt til Íslands en stór hluti er gerður upptækur af tollayfirvöldum. Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofu, segir það koma mörgum á óvart hversu mikið af fölsuðum varningi er flutt til landsins. Þar á meðal eru snyrtivörur, úr, farsímar, fótboltatreyjur og jafnvel lyf. Borghildur var gestur þáttarins Í bítið á Bylgjunni í morgun þar sem hún vakti athygli á ráðstefnu sem Einkaleyfastofa stendur fyrir fimmtudaginn 18. ágúst í tilefni af 20 ára afmæli stofunnar.

Fálkaungi í vörslu lögreglunnar

Fálkaungi er nú í vörslu lögreglunnar á Akureyri og verður afhentur Nátttúrufræðistofnun í dag. Fólk á gönguför ofan við bæinn, sá til ungans í gærkvöldi og náði að handsama hann, enda virðist hann vannærður og afræktur af foreldri sínu.

Drottning Kyrrahafsins verður ekki framseld

Dómstóll í Mexíkó hefur hafnað beiðni frá Bandaríkjunum þess efnis að kona, sem grunuð er um gríðarlegt eiturlyfjasmygl til Bandaríkjanna frá Mexíkó verði framseld. Konan var ennfremur sýknuð af ákærum um eiturlyfjasmygl og skipulagða glæpastarfssemi, en situr þó enn í fangelsi grunuð um peningaþvætti.

Myrti börnin sín til að hefna sín á barnsföður

Bresk kona var í gær dæmd í að minnsta kosti 32 ára fangelsi fyrir að myrða tvö ung börn sín fyrr á árinu. Eiginmaður konunnar, Fionu Donnison hafði skilið við hana nokkru áður og við réttarhöldin gaf hún þá ástæðu fyrir morðunum að hún hafi viljað refsa manninum með því að myrða börnin hans. Verjendur hennar báru við geðveiki en dómarar féllust ekki á það og dæmdu hana í fangelsi.

Ómönnuð sprengjuflugvél gerði árás í Pakistan

Pakistönsk yfirvöld segja að ómönnuð sprengjuvél Bandaríkjahers hafi banað 20 íslömskum hryðjuverkamönnum í árás á hérað við afgönsku landamærin. 16 hinna föllnu eru sagðir hafa verið Afganir en hinir pakistanskir.

Jarðskjálftar vestur af Grímsey

Jarðskjálftahrina varð um það bil 40 kílómetra vestur af Grímsey upp úr miðnætti og mældist snarpasti skjálftinn þrír á Richter. Nokkrir snarpir skjálftar fylgdu í kjölfarið en síðan hefur þeim farið fækkandi og styrkurinn í þeim farið dvínandi.

Grunur um kannabisræktun í íbúð sem brann

Grunur leikur á að kannabisræktun hafi verið í risíbúðinni í parhúsinu við Nesveg í Reykjavík, þar sem magnaður eldur kviknaði í gærkvöldi og eyðilagði íbúðina. Þar munu hafa verið hitalampar, sem hugsanlega hafa valdið íkveikjunni, en lögrelga verst allra fregna þar til starfsmenn rannsóknardeildar mæta á vakt.

Þrír létust í óeirðum í Birmingham

Óeirðirnar á Englandi héldu áfram í mörgum borgum í nótt. Gríðarlegur fjöldi lögreglumanna í London hafði hins vegar fremur lítið að gera miðað við síðustu nætur. Þrír létust í Birmingham.

Hinn grunaði áður dæmdur fyrir nauðgun

Hálfþrítugur karlmaður sem situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa nauðgað ungri konu á Þjóðhátíðarsvæðinu í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina síðustu, hefur hlotið dóm fyrir að nauðga ungri stúlku á tjaldsvæði.

Lítill háskóli með ódýran kafbát vann stóran sigur

Lið frá Háskólanum í Reykjavík náði fjórða sæti í kafbátamótinu RoboSub sem háð var í San Diego í Bandaríkjunum í síðasta mánuði. Styrmir Hauksson, nemandi í hátækniverkfræði og liðsmaður HR-manna, segir sigurinn sérstaklega sætan í ljósi þess að aðrir keppendur komu frá stórum og mikilsvirtum skólum sem hafa margoft tekið þátt í þessari keppni og leggja mikið upp úr því að ná þar góðum árangri. Þetta er hins vegar í annað sinn sem HR tekur þátt.

Skoruðu á Jóhönnu að semja

Nemendur í Kvikmyndaskóla Íslands gengu á fund Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í stjórnarráðshúsinu í gær. Þeir afhentu henni áskorun þess efnis að tafarlaust yrði gerður samningur við skólann sem tryggi rekstrarhæfi hans.

Veggjakrotarar nást í fimmta hvert sinn

Tilkynningum um veggjakrot til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað á undanförnum árum. Árið 2007 var tilkynnt um 399 brot en árið 2010 voru tilkynningarnar 102. Það sem af er þessu ári hefur verið tilkynnt um 58 brot.

Stefnt að rammasamningi

Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, vonast til þess að hægt verði að landa samningi við tannlækna fyrir lok vikunnar. „Við stillum þessu upp sem rammasamningi þannig að hver og einn geti gerst aðili að honum. Við vonumst til að ná tannlæknum inn á samning í byrjun september,“ segir forstjórinn en Sjúkratryggingar héldu kynningar- og umræðufund fyrir tannlækna í gær.

Enginn óhreinn reiðfatnaður inn í landið

„Ég tel þessa nýjung hafa þá þýðingu, að það sé óafsakanlegt, komi menn með óhreinan reiðfatnað til landsins, að setja hann ekki í hreinsun.“ Þetta segir Haraldur Þórarinsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, um samning sem gerður hefur verið við Fönn um móttöku og hreinsun slíks fatnaðar í Leifsstöð. Það eru landssambandið, Félag hrossabænda og Félag tamningamanna sem standa að þessu framtaki.

Eldur í ruslagámi

Slökkviliðið var kallað til þegar eldur kviknaði í gámi við Fossvogsdal í Reykjavík nú á tíunda tímanum í kvöld. Eldurinn reyndist ekki vera mikill.

Bíræfinna byssumanna leitað við Borgarfjörð

Skotið var með haglabyssu á gröfu í malargryfju skammt frá bænum Þverholtum á Mýrum á þriðjudag fyrir viku. Nokkrar rúður brotnuðu í gröfinni og einnig urðu fleiri skemmdir á tækinu, að því er fram kemur á vef Skessuhorns. Skothvellirnir heyrðust til næstu bæja og sást til tveggja ungra manna á hlaupum og síðan í akstri á gömlum rauðum Volkswagen Golf sem líklegast var með númerið OG og þrjá tölustafi þar á eftir.

Fá að taka egg úr látinni dóttur sinni

Dómstóll í Ísrael hefur fallist á beiðni foreldra sautján ára gamallar stúlku þess efnis að egg verði tekin úr henni og þau fryst, en stúlkan lést í umferðarslysi á dögunum.

Lauk þríþraut með hjálp gervilims

Fyrsta konan til að ljúka heilum járnkarli með hjálp gervilims er nú hér á landi við tökur á alþjóðlegri auglýsingu fyrir stoðtækjaframleiðandann Össur. Hún segir samstarfið við fyrirtækið vera ómetanlegt og gera henni kleift að ná markmiðum sínum.

Þóra ætlar að breyta áherslum á Nýju lífi

"Ég er mjög spennt fyrir því að taka við þessu, segir Þóra Tómasdóttir fjölmiðlamaður. Hún var í dag ráðin ritstjóri Nýs lifs. Þóra segir að aðdragandinn að ráðningu hennar hafi verið skammur. Hún býst við að einhverjar breytingar verði gerðar á ritstjórnarstefnunni. En ekki liggi fyrir hverjar þær verða.

Búið að slökkva eldinn á Nesvegi

Búið er að slökkva eldinn sem kom upp á Nesvegi í kvöld. Sex manns voru í húsinu þegar eldurinn kom upp, en íbúðin þar sem eldurinn kviknaði í var hins vegar mannlaus. Allar rúður brotnuðu á hæðinni þar sem eldurinn kom upp og virðist mikill hiti hafa verið inn í húsinu. Núna er verið að reykræsta íbúðina.

Eldur á Nesvegi

Töluverður eldur er á Nesvegi í Reykjavík og hefur allt tiltækt lið slökkviliðsins verið sent á staðinn. Við segjum nánari fréttir þegar þær berast.

Þráinn styður ekki fjárlög að óbreyttu

Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstri grænna, vill að fundin verði sanngjörn lausn á fjármögnun Kvikmyndaskóla Íslands og segist að óbreyttu ekki styðja fjárlög nema það verði gert. Hann segir æskilegt að fjármögnun skólans verði tryggð.

Sextán þúsund lögreglumenn á vakt í nótt - átök hafin í Manchester

Um 16 þúsund lögreglumenn verða á vakt í London í kvöld vegna þeirra miklu óeirða sem hafa verið síðan um síðustu helgi. Sexþúsund lögreglumenn voru á vakt í gær og í nótt og dugði það ekki til. Lögreglumenn á eftirlaunum hafa verið kallaðir til aðstoðar, að því er Sky fréttastofan greinir frá. Lögreglumenn í sumarleyfum hafa verið kallaðir í vinnuna.

Þóra Tómasdóttir tekur við Nýju lífi

Þóra Tómasdóttir, fyrrverandi dagskrárgerðarmaður í Kastljósi og blaðamaður á Fréttatímanum, var ráðin ritstjóri tímaritsins Nýs lífs í dag. Hún tekur við af Kolbrúnu Pálínu Helgadóttur. Kolbrúnu var sagt upp störfum. Fleiri breytingar hafa orðið hjá útgáfufélaginu Birtingi, því Ragnheiður Kristjónsdóttir, ritstjóri Séð og heyrt sagði upp störfum í dag, samkvæmt heimildum Vísis.

Rútan komin upp á þurrt land

Vel gekk að ná tékknesku rútunni upp úr Blautulónum í dag og komst hún loks á þurrt land um hálf þrjúleytið að sögn varðstjóra lögreglunnar á Hvolsvelli, sem fylgdist með aðgerðunum.

Forseti Tékklands gagnrýnir fyrstu Gay Pride gönguna þar í landi

„Ég finn ekki til stolts vegna þessa viðburðar“ segir Václac Klaus, forseti Tékklands, í yfirlýsingu á vefsíðu sinni um fyrstu Gay Pride gönguna sem haldin verður í höfuðborginni Prag á morgun. „Það er eitt að þola eitthvað, en það er allt annað að gefa því opinberan stuðning í nafni mikilvægrar stofnunar.“

Deilt um hvalveiðar Íslendinga: "James Bond skýtur þarna yfir markið"

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ætlar ekki að bregðast við opinberri fordæmingu leikarans Pierce Brosnan á hvalveiðum Íslendinga. Brosnan, sem er hvað best þekktur fyrir hlutverk sitt sem njósnarinn James Bond, er harðorður í garð Íslendinga í opnu bréfi þar sem hann hvetur Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, til aðgerða "Það er kominn tími til að senda Íslandi skilaboð sem ekki er hægt að hunsa: Viðskiptaþvinganir," skrifar Brosnan í bréfinu sem birtist í bandarískum fjölmiðlum á dögunum. Bjarni Harðarson, upplýsingafulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, segir Brosnan ekki fara með rétt mál að öllu leyti í bréfinu þar sem hann sakar Íslendinga um ómannúðlegar slátranir á hvölum og vill að þeir gjaldi fyrir það í eitt skipti fyrir öll. "Þarna skýtir James Bond yfir markið sem er nú heldur ólíkt honum," segir Bjarni í samtali við fréttastofu. Hann bendir raunar á að nokkuð sé síðan Brosnan hætti að leika njósnara hennar hátignar og kannski sé það ástæða þess að honum er farið að förlast. Stutt er síðan Barack Obama ítrekaði stuðning Bandaríkjastjórnar við hvalveiðibann og hafnar hann alfarið veiðum í vísindaskyni. Í yfirlýsingu sem Hvíta húsið sendi frá sér nýverið segir að Bandaríkjastjórn hafi verulegur áhyggjur vegna aðgerða íslenskra og norskra fyrirtækja til að endurræsa alþjóðlega verslun með hvalaafurðir. Bréf Brosnan má lesa hér í heild sinni á Huffington Post.

Sjá næstu 50 fréttir