Liverpool fór illa með United á Old Trafford

Luis Diaz fagnar hér öðru af mörkum sínum á Old Trafford í dag.
Luis Diaz fagnar hér öðru af mörkum sínum á Old Trafford í dag. Getty/Shaun Botterill

Liverpool valtaði yfir Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í dag og það á þeirra eigin heimavelli.

Liverpool byrjar því frábærlega undir stjórn Hollendingsins Arne Slot en liðið hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína á tímabilinu og hefur enn ekki fengið á sig mark.

3-0 sigur á erkifjendunum á Old Trafford og Liverpool er með fullt hús við hlið Manchester City á toppi deildarinnar. Markatalan er 7-0.

Úrslitin eru stórsigur fyrir nýja knattspyrnustjórann í herbúðum Liverpool en þeim mun vandræðalegri fyrir kollega hans.

Luis Diaz skoraði tvö mörk fyrir Liverpool en þau komu bæði eftir stoðsendingu frá Mohamed Salah og líka bæði eftir varnarmistök Casemiro sem var tekinn af velli í hálfleik. 

Salah skoraði síðan sjálfur þriðja markið. Hann hefur þar með skorað fimmtán mörk á móti Manchester United á Liverpool ferlinum.

Þetta var enn einn skellurinn hjá United á móti Liverpool á síðustu árum og vandamálin hrannast upp hjá hollenska knattspyrnustjóranum Erik Ten Hag.

Liverpool skoraði mark í upphafi leiks sem var dæmt af vegna rangstöðu. Trent Alexander-Arnold hélt þá að hann hefði komið Liverpool í 1-0 strax á sjöundu mínútu.

Leikmenn Manchester United björguðu þá á marklínu eftir skot Alexander-Arnold en úr dómarans sagði að boltinn hefði farið yfir marklínuna. Liverpool menn fögnuðu en aðeins of snemma. Myndbandsdómararnir skoðuðu markið og dæmdu Mo Salah rangstæðan í aðdragandanum. Markið var því réttilega dæmt af.

Fyrsta markið kom aftur á móti á 35. mínútu. Casemiro tapaði þá boltanum á versta stað og Liverpool náði hraðri sókn. Ryan Gravenberch gerði mjög vel, keyrði á vörnina og fann Mohamed Salah úti hægra megin. Salah lyfti boltanum á fjærstöngina þar sem Luis Diaz skallaði hann í markið.

Sjö mínútum síðar og rétt fyrir hálfleik kom annað markið og það var sama uppskrift og í fyrsta markinu. Casemiro tapaði boltanum á versta stað og Liverpool refsaði. Mohamed Salah fann Luis Diaz í teignum og Kólumbíumaðurinn skoraði með viðstöðulausu skoti. Tvenna frá Diaz og Liverpool í frábærum málum.

Mo Salah lagði upp fyrstu tvö mörkin en skoraði síðan þriðja markið sjálfur á 57. mínútu. Fékk boltann frá Dominik Szoboszlai og skoraði með góðu skoti. Eftir það voru úrslitin ráðin.

United fékk nokkur tækifæri til að minnka muninn en það vantar miklu meiri gæði í fremstu menn. Það er nóg af þessum gæðum aftur á móti hjá Liverpool.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira