Leik lokið: Grinda­vík - Valur 67-61 | Grinda­vík skrefi á undan Val

Siggeir Ævarsson skrifar
Dagbjört Dögg Karlsdóttir er lykilmaður í liði Vals.
Dagbjört Dögg Karlsdóttir er lykilmaður í liði Vals. vísir/Hulda Margrét

Grindavík vann 67-61 þegar liðið tók á móti Val í annarri umferð Bónus deildar kvenna í körfubolta. 

Það var sannarlega haust í lofti í Smáranum í kvöld og haustbragurinn frægi sveif yfir vötnum. Slök skotnýtning, tapaðir boltar og óteljani skrefadómar settu mark sitt á þennan leik en að lokum voru það þó Grindvíkingar sem kreistu sigurinn fram í leik sem fer seint í sögubækurnar fyrir áferðarfallegan körfubolta.

Heimakonur í Grindavík fóru betur af stað í upphafi en Valskonum gekk afleitlega að koma sínum skotum ofan í, voru 5/21 eftir fyrsta leikhluta. Þær rifu sóknarfráköst niður í bunkum, þau voru á tímabili fleiri en varnarfráköstin en ofan í vildi boltinn takmarkað og Grindavík leiddi 21-13 eftir fyrstu tíu mínúturnar.

Eftir að hafa sett alls núll þrista í fyrsta leikhluta komu þrír í röð frá Val og munurinn allt í einu kominn niður í þrjú stig, 29-26. Sóknarleikur Grindvíkinga fór algjörlega í baklás í leikhlutanum en þær náðu sér þó aðeins á strik í blálokin, staðan 34-29 í hálfleik og leikurinn galopinn.

Heimakonur komust aftur í bílstjórasætið í þriðja leikhluta en náðu þó ekki að slíta sig almennilega frá Valskonum. Staðan 52-43 fyrir lokaátökin og þrír þristar í röð frá Val til að opna leikhlutann þýddu að jafnt var á öllum tölum og naglbítur framundan.

Grindvíkingar náðu aftur upp forskoti en misstu það jafn harðan niður aftur. Það var ekki fyrr en í blálokin sem þær sigldu sigrinum heim og var það ekki síst magnaðri frammistöðu Alexis Morris að þakka.

Nánari umfjöllun og viðtöl á Vísi síðar í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira